Spurt og svarað

10. júlí 2012

Brjóstagjöf eftir misheppnaða brjóstagjöf

Sæl og blessuð!
 Mig langar að heyra aðeins um það hversu miklar líkur eru á því að ég geti haft næsta barn/börn á brjósti. Málið er að þegar ég átti dóttur mína kom aldrei mjólk hjá mér. Ég fann aldrei fyrir neinu og það var sama hversu mikið ég reyndi, pumpaði, örvaði, stelpan lá á, töflur, te, slökun, drykkir, svefn og bara nefndu það en þá kom þetta ekki hjá mér. Mér þótti það svakalega leiðinlegt. Má ég búast við öðrum eins erfiðleikum þegar næsta barn kemur? Eins langar mig að spyrja hvort það sé gott að örva brjóstin eitthvað á meðgöngunni til að auka líkurnar á því að mjólk komi og brjóstagjöfin heppnist vel?
 Bestu kveðjur!

Sæl og blessuð!
Það er leiðinlegt að heyra hversu illa þetta gekk síðast. En maður veit aldrei með næstu brjóstagjöf. Konum er yfirleitt alltaf ráðlagt að reyna aftur. Það fer reyndar svolítið eftir því hver var talin ástæðan fyrir því að illa gekk. Það kemur reyndar ekki fram hjá þér. En í flestum tilfellum er eitthvað sem má reyna að gera öðruvísi eða betur. Svo er að sjálfsögðu um að ræða annað barn sem gerir allt öðruvísi en hitt barnið. Þú getur ekkert gert á meðgöngunni til að auka líkurnar á að þetta gangi, annað en það sem þú ert að gera einmitt núna. Það er að segja velta fyrir þér hvað þú getur gert öðruvísi og hvernig þú getur fengið þetta til að ganga í þetta skiptið. Það sem ég ráðlegg þér er að passa að fá barnið á brjóst á fyrsta klukkutímanum eftir fæðingu og mjög ört eftir það fyrstu 2 sólarhringana eins og barnið nennir. Reyndu að fá einhvern til að aðstoða þig við láta barnið grípa alveg rétt brjóstið. Og gættu svo að því að barnið fái ekki snuð eða ábót fyrstu 2 sólarhringana. Á 3-4 sólarhring ætti að koma í ljós hvert stefnir.
Með bestu óskum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10.júlí 2012.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.