Spurt og svarað

07. apríl 2005

Brjóstagjöf fyrirbura

Góðan daginn allar!

Hér er ég, enn ein mamman að velta fyrir mér brjóstagjöf.  Hef lesið margt af því sem þið hafið svarað og er með spurningu út frá því.

Við eignuðumst dóttur 5 vikum fyrir tímann, en hún er orðin 9 vikna núna. Hún var á Vökudeildinni í tæpar 3 vikur eftir fæðingu, þurfti að þyngjast og læra að drekka, sem hún kunni ekki.  Hún fékk næringu í gegn um sondu fyrstu 2 vikurnar og var svo útskrifuð sem pelabarn á þurrmjólk. Ég gaf henni alltaf brjóstið, en hún var týpískt þyrnirósabarn, saug laust og gafst mjög fljótt upp. Hún fékk líka gulu, sem gerði hana ennþá latari.  Ég átti að mjólka mig, það var hræðilegt, þar sem það kom engin mjólk, en svo rann mjólkin fram fyrir dóttur okkar.  Sá einmitt frá einni mömmunni hérna, þar sem hún mjólkaði 20 ml í mjaltavélinni, en það var mikil gleði ef ég fékk 20 ml til samans, eftir kannski 45 mínútur!  Dóttir okkar fékk því mestmegnis þurrmjólk fyrstu 4-5 vikurnar, en þá bað ég um hjálp við að hætta á þurrmjólkinni. Ég hef náð að fara alveg yfir í brjóstagjöf í dag, með mikilli vinnu. Fékk Primperan til að auka mjólkina og það virkaði mjög vel á mig.  Svo í dag tek ég Fenegriek, mjólkuraukandi töflur úr Móðurást, sem hjálpar líka. Drekk einnig Weleda te og vatn og fleira og hvíli mig reglulega o.s.frv.

Ég gef henni alltaf bæði brjóstin í hverri gjöf, sá einhvers staðar að það ætti bara að gefa annað brjóstið í gjöf? Gjafirnar eru orðnar styttri í dag, gátu auðveldlega tekið klst til eina og hálfa áður, en núna er hún svona 10 mínútur á hvoru brjósti.  Ég var orðin svo glöð, því ég hélt að öll brjóstagjafavandræði væru búin, en kannski höfum við verið að gera þetta vitlaust í þennan tíma?

Krílið okkar er með mikinn vindgang, hefur alltaf verið þannig, getur það verið merki um að það sé eitthvað rangt að gerast hjá okkur?  Held ég hafi lesið einhvers staðar að það gæti bent til vandræða. Við vöknum á 2-3 klst fresti á næturnar og hún vill fá brjóst, en á daginn geta liðið allt upp í 5 klst á milli gjafa.  Væri til í að snúa þessu við, þ.e. fá lengri lotur á næturnar og styttri á daginn.

Þekkið þið Fenegriek töflurnar, vitið þið hversu lengi maður má taka þær?

Úff, þetta er orðið heilt spurningaflóð, er hætt núna! Vona að þetta sé ekki ruglingslegt, það komu bara upp fullt af spurningum á meðan ég var að skrifa og horfa á krílið okkar.

Takk fyrir allan fróðleikinn á þessum vef, það er mjög gott að geta leitað hingað.

Bestu kveðjur
Fyrirburamamma - með allar heimsins áhyggjur :-)

....................................................................................

Sæl og blessuð fyrirburamamma.

Þú átt hrós skilið fyrir alla vinnuna sem þú ert búin að leggja á þig til að ná upp brjóstamjólkinni. Það er mjög erfitt í þeim aðstæðum sem þú varst. Þú hefur fengið góðar leiðbeiningar fyrst þetta gengur svona vel. Og þegar búið er að ná upp framleiðslu er oft auðveldara að viðhalda henni. Það byggist þó alltaf á barninu og hversu vel það sýgur. Þú segist gefa alltaf bæði brjóstin í gjöf og það er fínt. Það er hins vegar betra að skipta því þannig að fyrra brjóst sé lengur og betur gefið. Þú getur gefið fyrra brjóstið t.d. í 15-20 mín. og skipt svo um brjóst. Ef barnið er sérlega svangt geturðu gefið því svo af fyrra brjóstinu aftur. Það köllum við að gefa 3 brjóst og á við þegar verið er að leggja áherslu á góða örvun og líka verið að fá extra stórar gjafir á þeim tímum sem börn eru mjög svöng.

Það er gott merki að gjafirnar styttist og þýðir bara að barnið er orðið færara í að ná mjólkinni úr brjóstinu.

Mikill vindgangur er algengur hjá brjóstabörnum og ef hann truflar ekki barnið ætti hann ekki að trufla aðra. Vindgangurinn gæti minnkað við breytt gjafamynstur.

Næturgjafir eru oft voða vinsælar hjá fyrirburum. Það er eitthvað við rólegheitin og huggulegheitin á nóttunni sem gerir það að verkum að þær verða í uppáhaldi. 2-3 gjafir að nóttu er vel sloppið. Reyndu að halda þeim í 2. Stundum gefst vel að reyna að gefa „stóra“ gjöf fyrir nóttina. Troða í barnið eins og hægt er kannski eftir bað og vita hvort ekki kemur langur blundur á eftir.

Fenugreek er vel þekkt sem jurt sem getur aukið mjólkurframleiðslu. Ég finn engar upplýsingar um að takmarka þurfi notkun ef notaðir eru venjulegir skammtar (2-3 stk., 3 sinnum á dag í 3 daga). Það er ágætt að taka svo hlé og sjá hvort virknin heldur áfram, annars byrja á öðrum skammti. Það er samt ekkert sem mælir gegn því að þær séu teknar viðstöðulaust.

Vona að þú hafir fengið svör við því sem þyngst hvíldi á þér. Annars skrifarðu bara aftur.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. apríl 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.