Spurt og svarað

23. júní 2012

Brjóstagjöf hætt og hvað svo?

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Nú er ég með 10 mánaða kríli sem er á brjósti kvölds og morgna og borðar fasta fæðu þess á milli. Ég er með tvær spurningar varðandi brjóstagjöfina. Hann er enn að æla frekar mikið orðinn þetta gamall. Ég er búin að fara með hann til læknis því mig grunaði kannski bakflæði. En hann heldur kúrfunni, sefur vel og er vær og góður. Hvað segið þið með gubbustandið? Eldist þetta bara af honum og ég held áfram að þvo? Hitt er varðandi að hætta brjóstagjöf. Ég er svona að velta fyrir mér hvað kemur í staðinn. Gef ég honum pela þega hann er orðinn þetta gamall? Þarf hann ekki ennþá næringuna? Núna borðar hann kvöldmat svona milli 18 og 18:30 og fær svo brjóst fyrir svefn um hálf átta. Ef ég hætti gjöfinni þarf hann þá ekki einhverja aðra næringu fyrir svefninn?

Bestu kveðjur S.Sæl og blessuð S!

Fyrri spurningu varðandi gubbustand svara ég sjálfsagt svipað og læknirinn. Ef barnið þyngist, þroskast og líður vel þá er ekkert að gera nema þá helst að hafa næringuna í minni skömmtum en oftar. Það getur líka hjálpað að hafa barnið rólegt í einhvern tíma eftir gjafir(ég veit að það getur verið hægara sagt en gert). Varðandi hitt vandamálið þá kemur það oftast af sjálfu sér að barnið kallar eftir meiri mat á öðrum tímum í staðinn. En það getur líka verið gott að bjóða eitthvað í magann fyrir svefninn. Þú hefur þetta eins og ykkur kemur best.


Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
23. júní 2012

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.