Spurt og svarað

30. júlí 2009

Brjóstagjöf í Dk

Ég bý í Danmörku og mér hefur fundist gott að geta farið inn á ljosmodir.is til að afla mér upplýsinga. Ég fæddi dóttir mína eftir 36 vikna meðgöngu og hún er nú 9 vikna. Ég fékk hrausta stelpu sem var 2.4 kg. Í byrjun var mikilvægt að hún fengi nóg að drekka til að þyngjast. Hún var með guluna og sökum hennar var mér sagt að vekja hana á þriggja tíma fresti til að drekka. Um 6 vikna losnaði hún við guluna og þyngdist vel þannig að mér var sagt að láta líða lengra á milli. Hún drekkur enn á þriggja tíma fresti yfir daginn en sefur í allt að 6 klst. yfir nóttina. Hún er mjög óvær á kvöldin og það er alveg greinilegt að henni líður illa í maganum. Dóttir mín tekur ekki snuð og sækir mikið í brjóstið. Hér í Dk hef ég rætt við lækni og hjúkrunarfræðing um það hvernig henni líður á kvöldin. Læknirinn vill meina að þetta gangi yfir og að ég megi leyfa henni að drekka eins mikið og hún vill því ungabörn láti vita þegar þau eru búin að fá nóg. Hjúkrunarfræðingurinn vill meina að hún fái of mikið að drekka og það sé ekki gott fyrir svona lítinn maga. Mér finnst óþægilegt að fá svona mismunandi svör og veit hreinlega ekki hvað ég á að gera. Ég hef prófað að leyfa henni að drekka eins og hún vill, þá á þriggja tíma fresti í 40-60 mínútur. Svo hef ég líka gert eins og hjúkkan ráðlagði, að gefa henni oftar í 15-20 mín í einu. Mér finnst henni líða betur ef ég bara leyfi henni að stjórna sjálf. En nú kemur að fyrirspurninni.Er hægt að tala um eðlilegan tíma fyrir barn til að drekka? Er kannski of mikið að hún drekki í klukkutíma í einu? Getur verið að hún noti brjóstið bara fyrir snuð? Dóttir mín þyngist vel  200 grömm á viku en einu sinni um 300 sem hjúkkunni fannst frekar mikið. Vegna þess að hún fæddist 4 vikum fyrir tíman hefur mér verið ráðlagt að gefa henni járn frá 4 vikna aldri. Er það líka ráðlagt á Íslandi?

 


Sæl og blessuð!

Það er skiljanlega erfitt að fá mismunandi ráðleggingar sérstaklega ef maður er í útlöndum. En það er rétt sem þér finnst greinilega að leyfa henni að stjórna þessu svolítið sjálfri. Gjafirnar eru reyndar ansi langar en kannski er það vegna þess að hún er enn að ná upp tækni eða að hún er að taka tvær gjafir saman (skipt um brjóst í miðri gjöf). Nei, hún getur ekki notað brjóst sem snuð. Ef hún vill sjúga þá vantar hana næringu. Hún nennir ekki að sjúga að gamni sínu. Á kvöldin gæti verið gott fyrir þig að nota skiptigjöf. Þá gefurðu stuttar gjafir og margar og skiptir oft um brjóst. Og nei, hér er svo gömlum börnum á brjósti ekki gefi járn. En það er mikilvægt að þú passir að fá nóg járn.

Vona að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
30. júlí 2009.

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.