Spurt og svarað

13. mars 2007

Brjóstagjöf með einu brjósti - eftir brjóstnám

Ég fór í brjóstnám fyrir nokkrum árum og er forvitin að vita hvort eitt brjóst geti annað brjóstagjöf án þess að þörf sé á ábót?  Býst við að það sé erfitt að svara spurningunni en langar að vita hvort það sé raunhæfur möguleiki.

Bestu kveðjur.

 


 

Sæl og blessuð!

Það er ekkert erfitt að svara þessari spurningu. Það er vel raunhæft að ætla sér að hafa barn aðeins á einu brjósti eins og fjölmörg dæmi sanna. Það er hjá langflestum konum nægur brjóstvefur í einu brjósti til að framleiða mjólk fyrir eitt og jafnvel tvö börn. Sumir hafa jafnvel velt fyrir sér til hvers hitt er, hvort það sé til vara eða til að skapa jafnvægi í líkamsbyggingu. Það má svo sem segja að í stöku tilfellum er brjóstvefur ekki mjög mikill og þá veitir ekki af tveimur en það er sjaldnast bein þörf á tveimur. Það sem er mikilvægast fyrir þig að hugsa um er að örva upp næga framleiðslu á fyrstu 3-4 dögunum eftir fæðinguna. Ekki láta freistast til að gefa barninu neina ábót. Það þarf ekki á henni að halda og ef hún er gefin stuðlar það að minni örvun og þar með minni framleiðslu. Brjóstið þarf örvun í samræmi við það sem barnið krefst. Ef minni örvun er gefin næst ekki upp rétt framleiðsla.

Gangi þér vel.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. mars 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.