Brjóstagjöf með leka PIP púða

26.02.2012

Góðan dag!

Ég er ólétt á 2/3 hluta meðgöngunnar og er með lekar PIP brjóstafyllingar. Það er mikilvægt fyrir mig að fá svör við því sem fyrst hvort sé í lagi að vera með barn á brjósti með lekar PIP brjóstafyllingar. Eða allavega fá að vita hvaða efni þetta eru, hversu skaðleg barninu þau eru og hvort þau fari út í brjóstamjólkina með blóðrás eða leka út í nærliggjandi vefi. Sérfræðingar hljóta að geta svarað því. Auðvitað veit maður að utanaðkomandi efni eru ekki æskileg fyrir barnið, en ég þarf að fá svör við því hve mikið skaðleg þau eru fyrir barnið að drekka með brjóstamjólkinni. Er þetta óhollt eins og kók er óhollt, eða eins og sígarettur eru óhollar eða erum við að tala um óhollt eins og blásýra? Það er ómögulegt fyrir mig að taka ákvörðun um það hvort ég ætla að hafa barnið á brjósti eða ekki með leka PIP púða ef ég veit ekki hversu skaðleg barninu þessi efni eru. Og það er eitthvað sem læknar og sérfræðingar verða bara að svara sem fyrst. Það gengur ekki að þeir þori ekki að svara og segi bara að engar rannsóknir séu til um það. Auðvitað eru ekki til neinar rannsóknir, þetta var að gerast. Ég þarf að vita þetta núna og það eru örugglega fleiri í mínum sporum. Verst finnst mér að læknirinn sem setti í mig PIP púðana skildi ekki hafa látið mig vita árið 2010 að það væri ekki í lagi með þessa púða.Þá hefði ég látið taka þá áður en ég varð ólétt því mér finnst brjóstagjöf mjög mikilvæg. Von mín er sú að þið gætuð hugsanlega hjálpað til við að leita svara.

Kveðja. Ólétt með PIP .

 


Sæl og blessuð Ólétt með PIP.

Þetta er vissulega erfið staða að vera í. Ég skal reyna að útskýra eitthvað fyrir þér. Það sem hefur verið ljóst lengi er að fólk innbyrðir töluvert magn af silikoni á degi hverjum. Þetta er afar algengt efni í matvælaframleiðslu og geymslutækni. Það er t.d. vitað að það er 10 sinnum meira af silikoni í kúamjólk en brjóstamjólk sem er ein ástæða fyrir því að mælt er með brjóstamjólk fyrir börn. Það hefur ekki mælst mikið silikon hjá börnum á brjósti með silikonpúðum svo það er talið í góðu lagi að hafa börn á brjósti með slíkum fyllingum. Það sem er hins vegar ekki rannsakað er hve mikið börn geta fengið frá lekum púðum og hverju það breytir að silikon PIP púðanna er ekki hreint. Það hefur heldur ekki verið kannað til hlítar, ef og þá hve mikið silikon getur skaðað í líkama barns. Þessu get ég ekki svarað frekar en aðrir. Það er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að fjarlægja púða á meðgöngu og brjóstagjöf ætti að geta gengið eðlilega eftir fæðingu barnsins. Ég ráðlegg þér að fylgjast með fréttum af málinu og hlusta á lækni þinn sem er í hvað bestri aðstöðu til að fá réttar upplýsingar.

Með bestu óskum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
26. febrúar 2012.