Brjóstagjöf með mat

08.03.2008

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef.

Ég er með stelpuna mína sem er 8 mánaða enn á brjósti, u.þ.b. 2 gjafir á dag. Mjög snemma á morgnana fyrir kl. 8 og eftir kvöldmatinn oftast um 20. Hún er farin að borða vel úr flestum fæðuflokkum, oftast um 4 sinnum á dag og drekkur hún þá stoðmjólk úr stútglasi með. Planið var að hún yrði alveg hætt eftir um mánuð. En mig langar aðeins að halda í gjafirnar, eða bara aðra hvora. Mælir þú með að halda í aðra hvora? Mér finnst þetta mjög notaleg stund fyrir okkur báðar og ég eiginlega tími ekki að hætta með hana :) Er eitthvað sem mælir á móti því að hafa hana áfram á brjósti fyrst hún er farin að borða vel? Hefur mjólkin eitthvað næringarlegt gildi með mat?

Og ein spurning í viðbót, má ég fara að ganga í venjulegum brjóstahaldara með spöng fyrsta að brjóstagjöfin hefur minnkað svona?

Með kveðju.


Sæl og blessuð.

Það er ekkert sem mælir á móti áframhaldandi brjóstagjöf nema síður sé. Mjög margar konur enda brjóstagjöfina á að gefa 1-2 gjafir á sólarhring vikum og mánuðum saman. Ef þú vilt hafa það bara 1 gjöf þá velurðu uppáhaldsgjöfina ykkar og heldur í hana. Mjólkin hefur alltaf mikið næringarlegt gildi fyrir barnið og hún ver það áfram gegn ýmsum sýkingum. Brjóstagjöfin heldur líka áfram að minnka líkur þínar til að fá krabbamein og beingisnun.

Já og þú mátt prófa að fara í spangarbrjóstahaldara ef þú vilt.

Kær kveðja, 

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. mars 2008.