Spurt og svarað

10. júlí 2006

Brjóstagjöf með tvíbura

Komið þið sælar og takk fyrir gagnlegan vef!

Ég er með 4½ mánaða gamla tvíbura sem voru teknir með keisaraskurði og var mjólkin nokkra daga að koma hjá mér. Þeir fengu svolitla gulu og voru latir að drekka og á fæðingardeildinni var þeim alltaf gefin ábót eftir hvert skipti sem þeir drukku hjá mér og tók það mig svolítinn tíma að trappa niður ábótina eftir að heim var komið og að lokum var það svo að þeir fengu bara ábót á kvöldin þegar mér fannst vera minna í mér.

Annar tvíburinn er þurftafrekari en hinn og er frekar óþolinmóður á brjóstinu ef það flæðir ekki upp í hann og það hefur hindrað mig í að taka af þeim ábótina á kvöldin því mér finnst þeir eitthvað svo voðalega svangir á þeim tíma og erfiðir. Þar sem þetta eru mín fyrstu börn þá er ég lítið fróð um brjóstagjöf en hef verið að lesa mér til smám saman og komist að því að ég hefði gjarnan viljað komast hjá þessu ábótarstandi öllu saman þar sem það á vel að vera hægt þó svo maður sé með tvö börn. Það hafa komið tímabil hjá mér þar sem mér hefur fundist minnka í mér og ég gripið til pelans til að friða börnin en einhvern veginn tekist samt að minnka ábótina aftur niður í að gefa hana bara á kvöldin og núna 4½ mánaða fá tvíburarnir mínir því sem samvarar u.þ.b 300 til 360 ml af þurrmjólk á sólarhring hvor sem er kannski einn og hálfur peli auk brjóstamjólkurinnar. Mig langar hins vegar til að geta hætt þessu þurrmjólkurbrasi alfarið og gefa þeim brjóstið eingöngu fram til 6 mánaða aldurs en er kannski of sein til þess. Er raunhæft hjá mér að taka af þeim ábótina og reyna að gefa bara brjóstið og hvernig fer ég þá að því? Ég hef verið að nota hjálparbrjóst mikið til þess að gefa ábótina en nota pelann líka samhliða því. Svo fer líka að líða að því að þeir fái eitthvað að borða annað en mjólk og mig langar að vita hvort ég gæti þá kannski sett grautinn á matseðilinn og kúplað þurrmjólkinni út á móti.

Með fyrirfram þökk. Kveðja, tvíburamamma


Sælar!

Það er hægt að reyna að hætta ábótargjöfunum með því að leyfa börnunum að sjúga oftar í ákveðinn tíma þá getur mjólkin aukist. Þetta er svipað - eins og þegar að börnin fara í vaxtarkipp - þá sjúga þau brjóstið oftar í 2 til 3 daga og oftast eykst mjólkin við það. Þú færð svo fína örvun með 2 börn - það er líka gott ef móðirin nær að hvíla sig í nokkra daga - allavega forðast álag ef það er hægt - hún þarf líka að vera dugleg að drekka vel - sumar fá sér mjólkuraukandi te.  Það er misjafnt hvenær börnin byrja að fá graut - það er náttúrulega mjög gott að bíða með það fram að 6 mánaða aldri en sumar mæður eru byrjaðar að gefa graut um 5 mánaða aldur.

Með bestu kveðju,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. júlí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.