Brjóstagjöf með þríbura

18.12.2006

Komdu sæl!

Ég á þriggja ára barn sem að ég var með á brjósti í 10 mánuði og hann þyngdist um u.þ.b. hálft kg á viku og dafnaði virkilega vel. Nú á ég von á þríburum og hef áhyggjur af því að brjóstagjöfin geti orðið vandamál. Fyrirfram er ég harðákveðin í því að gera allt sem í mínu valdi stendur til að börnin fái eins mikla brjóstamjólk og unnt er og helst af brjóstinu frekar en í pela. En ég mun að sjálfsögðu ekki svelta börnin né heldur ganga fram að sjálfri mér heldur leikur mér forvitni á að vita hvernig þetta gengur almennt og hvort það sé óraunsætt að ætla að maður geti verið með 3 börn á brjósti.

Með fyrirfram þökk, ein spennt og hörð brjóstakona!


Sæl og blessuð og til hamingju með það sem þú átt í vændum!

Þetta verður mikil vinna en því fylgir líka mikil gleði að fá tvíbura eða þríbura.  Með brjóstagjöf hjá þríburum þá getur það alveg gengið að hafa þrjú börn á brjósti en það er mikil vinna. Flestar þríburamæður sem ég hef kynnst undanfarin ár hafa gefið 2 börnum í einu og pabbi eða amma hafa gefið þriðja barninu pela og síðan hafa börnin skipst á að fara á brjóstið - stundum hafa mæðurnar átt mjólkaða móðurmjólk sem gefin er í pelann. Það er um að gera að vera bara bjartsýn og láta reyna á þetta þegar þar að kemur, sérstaklega þegar það gekk svona vel hjá þér með fyrsta barn - þá eru líkurnar meiri að þetta gangi vel. Þetta er stundum kallað brjóstagjafa maraþonið þegar mæður eru með tvíbura og þríbura á brjósti. Lykilatriðið er að þau séu öll á svipuðum tíma á brjósti svo móðirin fái einhverja hvíld á milli gjafa.

Með bestu kveðju og gangi þér vel,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. desember 2006.