Spurt og svarað

08. júlí 2006

Brjóstagjöf og ábót mánaðargamals fyrirbura

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég hef nokkrar spurningar og veit varla hvar ég á að byrja, er búin að lesa mikið af eldri fyrirspurnum og það hefur hjálpað.

Ég er með tæplega mánaða gamlan dreng sem fæddist aðeins fyrir tímann, tekinn með keisara og þurfti að vera á vökudeildinni í 9 daga. Ég gat ekki gefið honum brjóst fyrstu dagana þar sem hann þurfti að fá næringu í gegnum sondu. Mér var ráðlagt að mjólka mig og að sjálfsögðu fékk hann mína mjólk þegar framleiðslan komst af stað. Fyrsta mjólkin sem hann fékk var sem sagt þurrmjólk, svo fór hann að fá bæði brjóstamjólk og þurrmjólk og svo eingöngu brjóstamjólk eftir að við komum heim. Fór svo með hann í skoðun þriggja vikna gamlan og þá hafði hann einungis náð upp fæðingaþyngd sinni (3.500gr)og læknirinn ráðlagði ábót, en ég ætti algjörlega að stjórna því hvenær. Svo hefur hjúkrunarfræðingur komið heim og hún vill að ég gefi honum ábót alla vega þrisvar sinnum á dag eða oftar. Í dag er hann búinn að þyngjast um u.þ.b. 300 gr á einni viku og hef ég verið að gefa honum ábót (um 50ml) u.þ.b. 2-3 á sólarhring. Reyndar eftir að ég byrjaði að gefa honum ábót (þ.e þurrmjólk-SMA) hefur hann ælt frekar mikið og verið pirraður og herpt sig. Einnig er hann að drekka ört á morgnanna, u.þ.b. 1½ - 2 klukkustundir á milli gjafa. Eftir hádegi líða u.þ.b. 3 tímar milli og svo drekkur hann u.þ.b. einu sinni á nóttu (þ.e milli kl 00 og 8) svo mínar spurningar eru:

  • Getur SMA mjólkin verið of fiturík og valdið magaverkjum? Hef heyrt að önnur þurrmjólk geti verið betri.
  • Ætti ég að gefa honum svona oft ábót? Hann virðist stundum taka endalaust við!!
  • Dregur úr mjólkurframleiðslunni ef ég gef honum ábót? Er allt í lagi að hann drekki bara einu sinni á nóttu? (er reyndar að
    drekka oft á morgnanna)

Gæti spurt endalaust en læt þetta nægja :)

Kær kveðja

Ein með smá áhyggjur :)


Sæl og blessuð, ein með áhyggjur.

Takk fyrir skilmerkilegt bréf. Það er eðlilegt að þú sért með áhyggjur en þú getur nú farið að minnka þær. Þegar barn fæðist fyrir tímann er yfirleitt fyrsti tíminn á eftir erfiðastur. Að fá þau til að drekka nægilega til að fara að þyngjast. Þegar það er komið og þau hafa stækkað svolítið, styrkst og þroskast tekur náttúran við og hungur barnsins fer að segja alfarið til um næringarþörfina. Þá getur maður hætt að hafa svo miklar áhyggjur að þessu atriði. Það er ágætt að fylgjast með gjafafjölda á sólarhring og telja þvagbleyjur til að byrja með en maður er ekki að spá í hversu marga millilítra eða grömm barnið tekur og yfirleitt þurfa þau ekki ábót. Þetta byggist þó allt á aldri barnsins og þroska og það þurfa þeir að meta sem fylgjast með barninu.

Ég hef ekki heyrt talað um að SMA mjólkin sé of fiturík og mér finnst ótrúlegt að önnur mjólk sé eitthvað betri eða verri. Hún veldur hins vegar nær alltaf magaverkjum og börn eru yfirleitt nokkurn tíma að venjast henni.

Mér finnst ólíklegt að hann þurfi svona oft ábót orðinn þetta gamall og að þyngjast svona mikið. Fáðu leiðbeiningar hjá hjúkrunarfræðingnum um hvernig þú trappar ábótina niður.

Já, það er allt í lagi að hann drekki bara einu sinni að nóttu til. Það getur verið gott fyrir þig að hvílast. Teldu gjafirnar yfir heilan sólarhring. Þær eiga að vera 10-12 til að byrja með.

Vona að þessi svör skýri eitthvað,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. júlí 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.