Bólgueyðandi gel Orudis 2,5% á meðgöngu

08.08.2007

Ég er komin 23.vikur á leið og mig langar að spyrja hvort það sé hættulegt fyrir fóstrið að bera á sig bólgueyðandi krem sem heitir Orudis 2,5% gel

Málið er það að ég vinn standandi vinnu og í síðustu viku fór ég að finna fyrir svo miklum þrýsting niður í nára. Þegar ég skoðaði þetta nánar þá er ég rosalega bólgin fyrir ofan nára, eins og að barnið allt þarna inni þrýsti á eitthvað svæði sem verður svo aumt. Ég finn mikinn sársauka þegar ég snýti mér og líka þegar ég er búin að standa og labba mikið. Ég hreyfi mig reglulega 3-5 sinnum í viku þannig að blóðflæði og allt það ætti að vera í fínum málum. Er eitthvað sem ég get gert og er í lagi að nota bólgueyðandi krem?

Með fyrir fram þökk.


Sæl og blessuð!

Það er erfitt að meta hvað það er sem nákvæmlega er að hrjá þig en þú skalt ræða þetta við ljósmóðurina þína í næstu skoðun.

Varðandi Orudis gelið þá er ekki ráðlegt að nota það á meðgöngu. Eftirfarandi upplýsingar um gelið er að finna í Sérlyfjaskránni:

Meðganga
Ekki er ljóst hvort áhætta fylgir notkun ketóprófens á fyrstu sex mánuðum meðgöngu. Ketóprófen á því ekki að nota á fyrstu sex mánuðum meðgöngu.
Á síðustu þremur mánuðum meðgöngu geta öll efni sem hemja nýmyndun prostaglandína, þar með talið ketóprófen, valdið hjarta-lungna- og nýrnaskaða hjá fóstrinu.
Á síðustu dögum meðgöngu getur það lengt blæðingartíma bæði hjá móður og barni. Ketóprófen á ekki að nota á síðustu þremur mánuðum meðgöngu.“

Vona að þetta skýri málið eitthvað.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
8. ágúst 2007.