Brjóstagjöf og æfingar

03.02.2007

Sæl og blessuð !

Mig langar til að byrja að þakka fyrir frábæra síðu sem ég hef notast oft við.

Ég er með 2 spurningar og sú fyrsta er þannig að mig langar að fara að æfa aftur fótbolta eins og ég gerði áður en ég varð ólétt. Stelpan min er 4ra mánaða og ég hef ekki þorað að fara að æfa því ég er svo hrædd um að missa mjólkina og vil ekki láta það bitna á stelpunni. Því mér er sagt að það sé best fyrir hana að vera á brjósti til 6 mánaða. Er í lagi að byrja að æfa og hvað get ég gert ef mjólkin minnkar ?

Önnur spurning:  Það er oft svona nefhljóð í stelpunni og um daginn fékk hún hósta og mér var sagt að halda henni inni í 10-12 daga, á þessum tíma var hún alveg hitalaus og ekkert pirruð en ég hélt henni inni í rúmar 2 vikur.   Hóstinn er ekki eins slæmur en hann er ef hún grætur mikið þá hóstar hún og ef hún er þurr í munninum og er þyrst þá hóstar hún einnig. Á ég að hafa einhverjar áhyggjur af þessu eða hvað get  ég gert ?

Með fyrirfram þökk kv. EvaSælar, þér er alveg óhætt að byrja að æfa - fara rólega af stað og smá auka æfingarnar þá ganga hlutirnir oftast vel fyrir sig. Konur hafa jafnvel byrjað að æfa í kringum 2ja mánaða aldur barnsins og haldið mjólkinni þrátt fyrir það. Það á að vera alveg óhætt að stunda líkamsrækt og að vera með barn á brjósti án þess að það trufli brjóstagjöfina. Aðalatriðið er að
forðast of mikla áreynslu og að hlusta á líkamann, borða hollt og gott fæði og drekka nægan vökva.

Ég þori lítið að svara þessu með hóstann hjá barninu - ef þú hefur áhyggjur af hóstanum - þá ráðlegg ég þér að fara með hana í læknisskoðun og fá álit læknis - það er svo erfitt að segja til um svona hluti nema sjá barnið og skoða það. 

Gangi þér vel, kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi. 
03.02.2007.


>