Brjóstagjöf og áfengisneysla

10.05.2005

Ég vafra dálítið um netið og var að lesa um brjóstagjöf á Barnalandi um daginn í fyrirspurnum. Þar las ég um brjóstagjöf og áfengi. Ég persónulega hélt og held enn að það sé allt í fína að fá sér eitt léttvínsglas og held að á meðan þú sjálf finnur ekki fyrir neinum einustu áhrifum þá sé allt í hinu góða að gefa brjóstið. Ef þú finnur fyrir áhrifum þá bíður þú með að gefa barninu þínu þangað til þau líða hjá. Það á aldrei að mjólka sig og henda mjólk, eða er það? Ég las að það mætti alls ekki drekka og gefa brjóst og maður þyrfti að mjólka sig og henda mjólkinni í sólahring á eftir! Og veistu, þetta halda alveg rosalega margir. Skjátlast mér kannski?

Kær kveðja.

.....................................................................

Sæl!

Það rétt hjá þér að áfengi í mjólk tengist áhrifum sem finnast. Magnið er svipað í mjólk og í blóðinu á hverjum tíma. Og þótt maður vilji náttúrlega aldrei hvetja til áfengisdrykkju við brjóstagjöf þá er fáránlegt að loka augunum fyrir staðreyndum. Það er fullt af konum sem fá sér glas og glas við hátíðleg tækifæri og það er ekki heimsendir. Þótt konur séu með barn á brjósti eiga þær ekki að lifa eins og dýrlingar og umbylta öllu lífi sínu. Þær eiga að reyna að lifa eins venjulegu lífi og hægt er með kostum þess og göllum. Og það er líka rétt hjá þér maður á aldrei að mjólka og henda mjólk nema í henni séu beinlínis stórskaðleg efni. Það eru til dæmi um það eins og t.d. sterkustu krabbameinslyfin, geislavirk efni, flest eiturlyf o.fl. En hjá flestum konum er það í algjörum undantekningartilfellum sem slíkt kemur til.  Við höfum áður svarað svipaðri fyrirspurn um áfengi og brjóstagjöf og þú getur einnig skoðað það svar.

Með kveðju og von um að svörin nýtist,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
10. maí 2005.