Brjóstagjöf og áhugalaus tímabil

22.08.2009

Sælar!

Ég er með einn 9,5 mánaða gutta sem mig langar að halda á brjósti til a.m.k. 1 árs. Systkini hans var með mjólkurofnæmi og þess vegna mikilvægt að þessi fái brjóstamjólkina eins lengi og unnt er. Hann er farinn að fá graut 2-3 sinnum á dag og svo erum við að prófa okkur áfram með grænmeti og ávexti. Vandamálið er að hann er nánast hættur að vilja drekka yfir daginn. Ég reyni að fara með hann reglulega til að gefa honum en hann rétt tekur mesta þrýstinginn af brjóstinu og vill svo fara að gera eitthvað annað. Ég var búin að lesa  að börn venji sig yfirleitt ekki sjálf af brjósti fyrir eins árs og þá væri sniðugt að halda inni næturgjöfum til þess að missa mjólkina ekki niður. En nú fær hann sér af og til yfir daginn en tekur svo 2-3 góðar gjafir seinnipart kvölds og yfir nóttina. Er þetta alveg eðlilegt og get ég átt von á því að þetta áhugaleysi líði hjá? Fær hann of mikið magn af graut hverju sinni? Ég hef blandað grautinn útí vatn. Ef ég gef honum brjóst fyrir grautinn þá finnst mér hann borða lítið en ef hann á að fá brjóst eftir graut þá vill hann það ekki. Er þetta eitthvað sem þið kannist við og getið hjálpað mér með?

 Takk og bestu kveðjur!


 

Sæl og blessuð!

Þetta er ekkert óeðlilegt mynstur fyrir barn á þessum aldri. Það líður kannski ekki hjá en getur breyst. Börn geta hætt sjálf á brjósti milli 8 og 10 mánaða en þá er yfirleitt eitthvað sem ýtir því af stað. Eitthvað sem pirrar þau eða gerir þeim erfitt fyrir. Það er því fínt að þú bjóðir honum brjóstið svona oft. Þótt hann taki lítið þá er það í lagi, það viðheldur framleiðslunni. Þú getur prófað að hafa grautarskammtinn minni og bjóða honum brjóstið á eftir. Þá er nóg að hann taki 1-2 mínútur.

Vona að þetta hjálpi.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. ágúst 2009.