Spurt og svarað

15. janúar 2007

Brjóstagjöf og aðgerð í svæfingu

Góðan dag og takk fyrir frábæran vef.

Þannig er mál með vexti að ég er að fara í eyrnaaðgerð í lok mánaðarins og þá verður drengurinn minn 3. mánaða. Hann er nánast eingöngu á brjósti en hefur fengið 5 sinnum ábót af þurrmjólk frá því hann fæddist.  Ég fer í svæfingu og verð á spítala yfir nótt og ég hef fengið Morfín og Parkodín Forte eftir fyrri aðgerðir. Hvað get ég hugsanlega gert í þessari aðstöðu? Verð ég þá ekki að mjólka mig eftir aðgerð svo ég verði ekki á floti?

Ég vona að þið eigið einhver ráð handa mér.

Með kærri kveðju, Björk.


Sæl og blessuð Björk.

Best væri ef þú gætir samið við lækninn þinn og starfsfólk deildarinnar sem þú leggst inn á um að fá að hafa drenginn hjá þér. Þú getur að sjálfsögðu gefið honum brjóst rétt áður en þú ferð í aðgerðina og eftir aðgerðina geturðu lagt hann beint  á brjóst um leið og þú ert komin á deildina aftur (ef hann þarf þess). Ekki láta neinn segja þér að þú þurfir að mjólka þig og henda mjólkinni eftir aðgerðina þar sem það er löngu úrelt aðferð. Eftir það gefurðu honum eftir þörfum. Það er í fínu lagi þótt þú fáir morfín þar sem það kemst lítið yfir í mjólk. Önnur verkjalyf eru líka í lagi tímabundið (nokkra daga).  Ef starfsfólkið er mjög ósveigjanlegt við þig þá verðurðu að hafa það þannig að gefa áður en þú ferð í aðgerðina. Barnið fær svo mjólkaða mjólk eða þurrmjólk þar til þú kemur heim. Í millitíðinni verðurðu náttúrlega að mjólka þig eftir þörfum. Það gæti verið á 4-5 tíma fresti. Þú getur bent starfsfólkinu á hvað þetta er gert óþarflega flókið fyrir þig með seinni aðferðinni og að það valdi meiri hættu á truflun á brjóstagjöfinni til frambúðar því börn bregðast misjafnlega við svona truflun.

Með bestu ósk og von um að vel gangi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
15. janúar 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.