Spurt og svarað

09. maí 2005

Brjóstagjöf og aðskilnaður frá barni

Sælar og kærar þakkir fyrir frábæran vef!

Ég neyðist til að fara til útlanda frá 4 mánaða dóttur minni í 6 daga en hún hefur eingöngu verið á brjósti. Er einhver leið fyrir mig til að halda mjólkinni og halda brjóstagjöfinni áfram eftir að ég kem heim aftur? Ég á nóga mjólk fyrir hana í frysti sem hægt er að gefa henni meðan ég er í burtu.

Kveðja, móðir á faraldsfæti.

................................................................................

Sæl og blessuð móðir á faraldsfæti

Já, það er ekkert mál fyrir þig að viðhalda mjólkurframleiðslunni í útlöndum. Þú þarft að kunna einhverja aðferð til að mjólka þig sem þú greinilega kannt fyrst þú ert með fullan frysti af mjólk. Það getur hvort heldur sem er verið einhvers konar pumpa eða handmjólkun. Þú þarft að mjólka þig svipað oft og þú myndir gefa barninu ef þú værir heima. Það er í lagi að það sé 1-2 skiptum sjaldnar. Það þarf ekkert endilega að vera á sömu tímum en passaðu að það líði aldrei meira en 6 klst. á milli. Magnið verður heldur aldrei það sama og barnið myndi taka og þú gætir tekið eftir að framleiðslan dalaði þegar á líður dvölina. Það gerir ekkert til. Barnið nær því upp þegar þú kemur heim og er enga stund að því. Það er stundum erfiður tími þegar snúið er heim aftur. Börnin virka svolítið „móðguð” og eru stundum einhvern tíma að taka mömmu og/eða brjóstin í sátt aftur. Taktu það ekki nærri þér. Það jafnar sig fljótt. 

Með bestu óskum um góða ferð,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. maí 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.