Spurt og svarað

06. janúar 2009

Brjóstagjöf og blæðingar

Sæl!

Ég á hér eitt rúmlega sjö mánaða kríli sem er mikið brjóstabarn. Brjóstagjöfin hefur gengið mjög vel. Vandamálið er ef vandamál skildi kalla er að kútur vill ekkert annað að drekka. Reyni alltaf að gefa honum vatnssopa með mat þar sem hann er aðeins farin að borða en það gengur ekki neitt. Fyrir rúmum mánuði byrjaði ég á blæðingum. Mér fannst þá eins og það væri mun minni mjólk. Losunarviðbragðið kom seint og illa og hann varð aftur og aftur mjög reiður á brjóstinu. Næturnar voru erfiðar þar sem hann vildi drekka út í eitt en hann sefur yfirleitt sex tíma. Þegar blæðingum lauk hafði hann náttúrlega örvað mjög mikið og ég var gjörsamlega að springa. Það tók um viku að ná jafnvægi aftur. Nú við næstu blæðingar upphófst það sama. Er það þekkt að mjólk geti tímabundið minnkað meðan á blæðingum stendur? Og geta blæðingar einnig haft áhrif á losunarviðbragðið? Er eitthvað sem ég get gert til að við lendum nú ekki í þessu aftur?

 


Sæl og blessuð.

Það er vel þekkt að blæðingar hafi áhrif á brjóstagjöf en það er afar einstaklingsbundið hversu mikil áhrifin eru. Það er ekki algengt að áhrifin séu eins mikil og þú ert að lýsa. Blæðingar geta svo verið óreglulegar fyrst eftir fæðingu.

Það er ekki auðvelt að benda á leiðir til hjálpar vegna þess að orsökin er hormónasveiflur.  Það skiptir máli að þú hugsir vel um sjálfa þig á þessu tímabili og notir þær aðferðir sem þú varst vön til að draga úr óþægindum. Góð slökun hjálpar alltaf til með losunarviðbragðið en blæðingarnar hafa ekki bein áhrif á það. Mér finnst trúlegt að viðbrögð bansins verði ekki eins ofsafengin í framtíðinni en þetta er kannski góður tími til að bjóða aðra drykki.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. janúar 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.