Spurt og svarað

18. apríl 2005

Brjóstagjöf og blæðingar

Sælar!

Ég eignaðist dóttur fyrir rúmum tveimur mánuðum og brjóstagjöfin gekk vel fyrstu vikurnar. Nákvæmlega 4 vikum eftir fæðinguna fékk ég blæðingar sem mig grunaði að gætu verið túrblæðingar (úthreinsunin var þá löngu búin) en ljósan mín fullvissaði mig um að það væri nánast ómögulegt að svo hefði verið. Á sama tíma fannst mér brjóstagjöfin fara að ganga verr og stelpan hætti að þyngjast eins mikið og fyrstu vikurnar. 28 dögum eftir þessar blæðingar fékk ég svo blæðingar aftur þannig að það er ekki um það að villast að þetta hafa verið túrblæðingar og strax orðnar reglulegar aftur. Nú er svo komið að hún hefur sama og ekkert þyngst síðustu 2-3 vikur og ég er farin að gefa henni þurrmjólk. Nú langar mig að vita hvort það sé eitthvað samhengi milli þess að byrja á blæðingum og að brjóstamjólkin fari að minnka eða barnið fari að hafna henni? Vonandi eigið þið einhver svör við þessu.

Með fyrirfram þökk.

.........................................................................

Sæl og blessuð.

Það er alltaf ákveðin prósenta kvenna sem hafa eðlilegar blæðingar strax eftir barnsburð þótt þær séu í fullri brjóstagjöf. Það er bara spurning um örlítil tilbrigði í hormónabúskap og er fullkomlega eðlilegt. Það truflar þó ekki brjóstagjöfina hjá þeim nema eitthvað annað komi til. Þannig að þér er alveg óhætt að fara að leita að öðrum orsökum fyrir því að ekki gengur sem skyldi.

Margar konur með börn á brjósti tala um að fyrstu dagar tíða séu stundum erfiðir. Börnin biðji oftar um brjóstið eða séu með stæla við brjóstið. Það verða náttúrulega hormónabreytingar í tengslum við tíðir sem geta valdið örlitlum breytingum á brjóstagjöfinni. Flestum finnast þessi vandamál yfirstíganleg. Þetta hefur ekkert með framleiðslugetu brjóstanna að gera heldur er þetta meira spurning um að aðlaga gjafamynstrið aðstæðum. Í þínu tilfelli ertu í kjöraðstæðum að aðlagast þessu vel (þar sem þetta byrjar svona snemma hjá þér). Hins vegar þegar þú byrjaðir að gefa þurrmjólk hafa brjóstin örugglega minnkað framleiðsluna sem því nemur. Þannig að ef þú ætlar að auka mjólkurframleiðsluna aftur þá þarftu að sleppa ábótinni (smám saman), gefa margar litlar gjafir, telja þvagbleyjur á sólarhring og hugsa vel um sjálfa þig. Það getur verið gott að fá þéttar vigtanir ef þú ert í vafa og þú manst að barnið þarf að þyngjast um 110 gr. á viku a.m.k. Ef það er langt frá því 2 vikur í röð þá þarf að endurskoða gjafamynstrið hjá þér.

Vona að þú hafir fengið þau svör sem þig vantaði,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. apríl 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.