Brjóstagjöf og blæðingar

03.08.2005
Mig langar að spyrja í sambandi við blæðingar eftir barnsburð.
Ég er með 6 mánaða gamalt barn og byrjaði á blæðingum þegar það var 3 mánaða. Fór svo aftur á blæðingar á 4 mánuði en svo ekkert þar til fyrir mánuði og er ég enn að bíða eftir að ég byrji. Ég er búin að vera með mikla túrverki og líða bara hálf illa, er alltaf viss um að ég sé að byrja en svo bara kemur ekkert. Er það eðlilegt að það komi svona stopp?  Ég er með barnið eingöngu á brjósti, stunda kynlíf með manninum mínum en notum smokkinn.
 
...............................

Sæl vertu og þakka þér fyrirspurnina, þetta getur átt sér eðlilegar skýringar, þ.e. að frjósemi er oftast mun  minni þegar mæður eru eingöngu með börn sín á brjósti, þá verður ekki alltaf  egglos á ,,réttum" tíma og því ekki blæðingar á réttum tíma.  Margar konur sem eru eingöngu með barnið sitt á brjósti sleppa alveg við blæðingar meðan svo er, hjá öðrum eru blæðingar stopulli eða óreglulegar.  Ég held að það væri samt gott að útiloka aðra þungun með þvi að gera þungunarpróf, ef það reynist neikvætt held ég að þú getir beðið róleg eftir næstu blæðingum nema ef verkirnir halda áfram og eru slæmir finnst mér sjálfsagt að leita með þetta til kvensjúkdómalæknis.
 
Gangi þér vel,
bestu kveðjur,

Inga Vala Jónsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
3. ágúst, 2005.