Brjóstagjöf og blæðingar

03.02.2006

Halló,

Ég á ársgamla dóttur og er að hætta með hana á brjósti, við erum komnar niður í eina gjöf úr hvoru brjósti á dag. Ég hef ekkert farið á blæðingar síðan ég byrjaði á pillunni stuttu eftir fæðinguna. Fyrir þrem vikum byrjuðu svo litlar blæðingar, og búið að standa í þrjár vikur. Þetta eru mjög litlar blæðingar sem jafnvel minnka niður í ekkert í einn dag en halda svo áfram. Er eðlilegt að þetta sé svona lengi? Tengist þetta því að brjóstagjöfin sé orðin svona lítil?

Takk fyrir

Hulda

........................................

Sæl og blessuð Hulda.

Til hamingju með langa og vonandi góða brjóstagjöf
Það eru reyndar ekki mikil tengsl milli blæðinga og brjóstagjafarinnar þegar svo langt er liðið frá því þú fórst að taka pilluna. Þá er hormónaflæðið í  líkamanum orðið allt annað en ef bara brjóstagjöfin hefði stjórnað. Fjöldi gjafanna skiptir þá minna máli og væntanlega ertu búin að vera fækka gjöfunum um einhvern tíma.
Svo langar blæðingar koma fyrir en þú ættir samt að hafa samband við lækni og ræða málin. Kannski er inn í myndinni að breyta um tegund þar sem þú ert svo til hætt brjóstagjöfinni.
         
Með kveðju og góðum óskum.           
 
Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi. 03.02.2006.