Brjóstagjöf og blæðingar

08.02.2006

Er með 11 mánaða strák sem er enn á brjósti reyndar bara kvölds og morgna og svo aðeins á nóttunni. Er eðlilegt að ég sé ekki farin að hafa blæðingar. Var síðast með á brjósti í tæpa 14 mánuði en byrjaði samt á blæðingum.

......................................................................................................

Sæl og blessuð.

Það er ánægjulegt að heyra hvað þú hefur verið lengi með barnið þitt á brjósti! Varðandi blæðingarnar þá nefnir þú ekki hvaða getnaðarvarnir þú notar. Þetta getur nefnilega haft áhrif á blæðingarnar. Margar konur nota „brjóstapilluna” en í henni er eingöngu progesterone hormón og hún er tekin samfellt, með engu hléi á milli og oft falla blæðingar alveg niður meðan konan notar hana. Sama má segja um hormónasprautuna og hormónastafinn. Ef þú notar engar af ofangreindum getnaðarvörnum, þá getur samt verið alveg eðlilegt að blæðingarnar séu ekki byrjaðar því að þó að þú sért lítið með barnið á brjósti, þá hefur það samt hormónaáhrif í líkamanum og margar konur byrja ekki á blæðingum fyrr en nokkru eftir að þær eru alveg hættar með barn á brjósti.

Vona að þetta svari spurningunni!

Ingibjörg Baldursdóttir,
hjúkrunarfræðingur og brjóstagjafaráðgjafi,
8. febrúar 2006.