Spurt og svarað

28. maí 2008

Brjóstagjöf og blöðrur á eggjastokkum

Sælar og takk fyrir frábæran vef!

Ég er sett í næstu viku og því eðlilega farin að huga að ýmsu sem viðkemur brjótagjöf. Málið er það að brjóstagjöfin hjá fyrra barni mínu gekk ekki. Ég virkilega vildi láta brjóstagjöfina ganga upp en hann þyngdist illa og ljósmóðirin sem kom í heimaskoðanirnar mældi með því að ég gæfi honum ábót sem ég og gerði og hann byrjaði að dafna betur og  gráta minna. Ég er með blöðrur á eggjastokkum og er núna að spá hvort að það geti haft áhrif á möguleika mína á brjóstagjöf þar sem ég hef lesið greinar sem gefa það í skyn? Mig langar þess vegna að spyrja ykkur hvort þið hafið heyrt um þetta og hvort það er eitthvað sem ég get gert? Þess má geta að ég hef ekki fundið neinn mun á brjóstunum á mér á meðgöngunni miðað við venjulega og það hefur ekki lekið svo mikið sem einn dropi úr þeim.

Kveðja, Ein að spekúlera.

 


 

Sælar!

Með blöðrur á eggjastokkum er það þekkt að það getur það haft áhrif á framleiðslu hormónsins prolaktíns sem er mjólkurframleiðslu hormónið. Það getur haft þannig áhrif að það framleiðist minni mjólk eftir fæðingu. Það borgar sig að reyna brjóstagjöf og það er aldrei að vita það getur gengið betur næst. Mikilvægast er að leggja barni oft á brjóst fyrstu dagana á 2 til 3 klst fresti. Það skiptir miklu máli að fá góðan stuðning hjá ljósmóður fyrstu dagana eftir fæðingu.

Gangi þér vel

Kveðja,

Ingibjörg Eiríksdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
28. maí 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.