Spurt og svarað

08. ágúst 2004

Brjóstagjöf og Cerazette pillan

Ég á 2ja mánaða barn og er með það á brjósti. Um daginn fékk ég lyfseðil fyrir Cerazette pillunni og ég veit ekkert hvenær ég get byrjað að taka hana þar sem blæðingar hafa ekki byrjað hjá mér. Gleymdi hreinlega að spyrja lækninn út í þetta. Vona að einhver ykkar geti hjálpað mér.
Svo er annað. Barnið mitt er duglegt að drekka (suma daga á klst. fresti), en yfirleitt byrjar það að verða órólegt eftir smástund á brjósti og fer að engjast sundur og saman. Er að sleppa geirvörtunni og leita til skiptist og er mjög pirrað. Hvað er í gangi? Þetta er búið að vera svona nánast frá upphafi. Það er með ungbarnakveisu/krampa og ég hef verið að velta fyrir mér hvort það sé samhengi þarna á milli; þ.e. óróleika á meðan það drekkur og kveisunnar. Eða er þetta e-ð óskylt.

Með von um svör.
Kveðja, Ó.

.............................................................


Sæl og blessuð.

Það er auðvitað mjög gott að barnið þitt er svona duglegt að drekka. En ef það er almenna reglan hjá því að drekka á klst. fresti þá læðist nú að mér grunur um að gjafirnar gætu verið of stuttar. Stuttar gjafir gefa formjólk í meirihluta og sum börn verða óróleg ef þau fá mikla formjólk. Ef börn eru alltaf að drekka 5-10 mín. gjafir eða það er alltaf skipt um brjóst eftir þennan tíma þá geta þau lent í vandræðum með að ná eftirmjólkinni. Sum börn finna ekki fyrir óþægindum og meirihluti barna hefur gjafir mislangar sem er í fínu lagi en það eru margar stuttar gjafir sem gætu valdið vandræðum. Formjólkurofeldi er algeng ástæða ungbarnakveisu og því getur vel verið samhengi þarna á milli.

Önnur algeng ástæða óróleika við brjóst er slæm gjafastelling. Börnum sem haldið er mjög lauslega eða þannig að höfuðið sé með sáralítinn snertipunkt fá að því er virðist óöryggistilfinningu og eru sífellt að slengja höfðinu til í leit að stuðningi. Eins börn sem eru lögð með munn of langt frá vörtu í byrjun og þurfa verulega að hafa fyrir því að halda vörtunni í munninum. Þau geta orðið mjög pirruð.

Kannski er ástæða vandræða þinna sambland þessara þátta. En það getur verið erfitt að brjóta upp vítahring hegðunar sem hefur myndast á mörgum vikum og kostar stundum mikla vinnu í nokkra daga en mundu bara að það er allt hægt í brjóstagjöf.

Kær kveðja,                                                                  
Katrín Edda Magnúsdóttir, ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi.

Varðandi pilluna þá getur þú byrjað að taka hana hvenær sem er og þarft ekki að bíða eftir að byrja á blæðingum.  Blæðingar byrja nefnilega ekki fyrr en eftir að egglos verður. 

Mig langar hins vegar að benda þér á að brjóstagjöf getur verið góð getnaðarvörn og er nefnilega mjög vanmetin kostur. Samkvæmt rannsóknum getur brjóstagjöf verið 98-100% örugg getnaðarvörn!  Til þess að hægt sé að reikna með þessu öryggi þarf að uppfylla þrjú skilyrði:

  • Tíðablæðingar eru ekki byrjaðar á ný (blæðingar á fyrstu 8 vikunum eru ekki taldar vera tíðablæðingar).
  • Barnið fær ekki reglulega ábót og ekki líða meira en 4 tímar á milli gjafa á daginn eða 6 tímar á nóttunni (barnið er eingöngu eða nær eingöngu á brjósti)
  • Barnið er ekki eldra en 6 mánaða.

Ef eitthvað af þessum skilyrðum er ekki uppfyllt er ekki hægt að treysta á brjóstagjöf sem getnaðarvörn en séu öll skilyrðin uppfyllt er þetta mjög örugg getnaðarvörn.

Kær kveðja,                                                                                              
Anna Sigríður Vernharðsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir - 7. ágúst 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.