Bólgueyðandi sprautulyf í vöðva á meðgöngu

09.04.2008

Sælar!

Mig langaði að spyrja um hvort hægt væri að fá bólgueyðandi sprautulyf í vöðva á meðgöngu.  Ég er gengin 9 vikur með mitt annað barn og hef verið mjög slöpp þessar fyrstu vikur, óglatt og mjög þreytt. Ég hef því þurft að liggja mikið í rúminu. Við þessar aðstæður versnar krónísk vöðvabólga sem ég þjáist af mjög mikið. Á síðustu meðgöngu var ég læst í baki nær allan síðasta þriðjunginn og nú er ég farin að finna fyrir eins læsingu. Vöðvabólgan er í vöðvafestum yfir rifbeinin og nú er ástandið orðið það slæmt að ég á í öndunarerfiðleikum. Ég get ekki dregið andann djúpt án þess að finna fyrir verkjum í öllu rifjahylkinu, upp meðfram herðablöðunum og upp í axlir. Tilfinningin sem ég fæ er eins og eitthvað sé í klemmu.

Ég hef oft verið í sjúkraþjálfun vegna vöðvabólgu en með takmörkuðum árangri. Ég get ekki tekið bólgueyðandi lyf eins og íbúfen eða voltaren eins og ég myndi venjulega gera. Ég hef hins vegar heyrt að hægt sé að sprauta bólgueyðandi lyfjum inn í vöðva og þá sé verkunin staðbundin og hafi engin áhrif á fóstur. Er eitthvað til í þessu?

 


 

Sæl og blessuð!

Ég hef því miður ekki þekkingu á þessu sviði en vil benda þér á að ræða við heimilislækninn þinn.

Ég veit hins vegar að regluleg hreyfing getur verið gagnleg til að koma í veg fyrir vöðvabólgu og margir halda sér góðum með því að stunda hreyfingu. Nú er bara spurning hvað þú treystir þér til að gera. Ef þú treystir þér t.d. út að ganga þá er röskleg ganga með kröftugum handahreyfingum mjög góð hreyfing. Ef þú treystir þér til þá getur líka verið gott að fara í heitan pott í dálitla stund og þér er alveg óhætt að nota vatnsnuddið í heitu pottunum á herðarnar, það getur mýkt upp stífar herðar. Það er ekki gott að fara í mjög heitan pott eða vera of lengi en það er í góðu lagi að vera smá stund í hæfilega heitum potti. Þegar farið er í heitan pott getur verið gott að hafa með sér vatnsflösku til að drekka og mikilvægt að hlusta á líkamann eins og alltaf.

Heitir bakstrar og hitapokar geta líka komið að gagni meðan þú liggur fyrir.

Vona að  þú farir að hressast!

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
9. apríl 2008.