Spurt og svarað

16. júní 2006

Brjóstagjöf og efnaskiptin

Sælar! Fyrst langar mér að þakka fyrir ótrúlega hjálplegan vef.

Er með 9 mánaða kríli á brjósti og ætla að halda því áfram og er að velta fyrir mér hvað það er svo brjóstagjöfin gerir við efnaskiptin hjá manni? Af hverju er það ólíkt hvort konum finnist þær fitna eða grennast við brjóstagjöfina? Hef ekki náð af mér allri meðgönguþyngdaraukningunni en er núna komin á fullt í ræktina og er því að velta þessu fyrir mér hvort að það sé eitthvað sem virkar öðruvísi þegar maður er með þau á brjósti.


Sæl og blessuð.

Það er tvennt sem hefur mest áhrif til grenningar eftir barnsburð.

  1. Hormónaflæði sem gerir það að verkum að líkaminn gengur á fyrirframsafnaðan fituforða. Þessi fituforði safnaðist á meðgöngunni og hann situr á ákveðnum stöðum - á mjöðmum, á kviðvegg, á brjóstum mest, en víðar í minna mæli.
  2. Bein orkueyðsla við framleiðslu mjólkurinnar og svo tap á næringarefnum út úr líkamanum með mjólkinni.

Fyrra atriðið er langvirkast fyrstu 3 mánuðina, nokkuð virkt upp í 6 mánuði en svo dregur smám saman úr því. Eftir fyrsta árið eru þessi áhrif ekki mikil. Í sambandi við þetta atriði skiptir hlutfall brjóstagjafarinnar miklu máli. Þær sem hafa barnið eingöngu á brjósti grennast yfirleitt hraðast en um leið og barnið fer að fá ábót eða mat þá hægir á.

Seinna atriðið er mun jafnari þáttur. Orkueyðslan til framleiðslunnar er nokkuð jöfn tala og tap á næringarefnum líka. Þarna skiptir þó máli hve vel nærð kona er. Ef hún er vel nærð og fær jafnt og þétt öll þau næringarefni sem nauðsynleg eru gengur þetta nokkuð ljúflega fyrir sig. Hjá illa nærðum konum getur líkaminn þurft að beita ýmsum brögðum til að mjólkin fái öll sín efni. Afleiðingin getur orðið sú að einhver næringarefni vantar hjá móðurinni og það getur jú bitnað á heilsu hennar.

Því skiptir máli á meðan brjóstagjöf stendur hvernig næringin er. Það þarf tiltölulega orkuríkan mat með öllum næringarefnum. Það þýðir að fjölbreyttur matur er bestur. Það er ekki sniðugt að tína út einhverjar matartegundir og setja á bannlista. Þá er fæðið strax orðið einhæfara. Það er heldur ekki sniðugt að neita sér um hitaeiningar sem maður þarf á að halda. Það sem skiptir máli er að hitaeiningarnar séu á heppilegu formi. Og það er nauðsynlegt inn á milli að borða nákvæmlega það sem mann langar mest í. Líkaminn er oft að segja manni hvað hann vantar.

Þú spyrð af hverju það er ólíkt hvort konum finnst þær fitna eða grennast við brjóstagjöfina. Ástæðan getur verið sambland af þessum þáttum en langoftast er það samsetning fæðunnar og hlutfall orku inn og orku út.

Eftir því sem frá líður fæðingunni fer hreyfing að skipta máli. Þú segist vera komin á fullt í ræktina og það er bara fínt. Þannig að prófaðu að breyta fæðinu og vittu hvort þér finnst ekki eitthvað breytast.

Með bestu kveðjum,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafarágjafi,
16. júní 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.