Spurt og svarað

14. ágúst 2004

Brjóstagjöf og hiti

Ég á þriggja vikna stúlku sem ég er með á brjósti og okkur heilsast báðum mjög vel og allt hefur gengið eins og í sögu. Nú er ég komin með smá hitavellu sem ég held að sé einhver umgangspest og var að velta því fyrir mér hvort hitinn hefði einhver áhrif á mjólkina og þar með barnið? Eða á ég bara að gefa henni áfram brjóst? Takk fyrir alveg frábæran vef, hann er búinn að nýtast okkur mæðgunum mjög vel og svara mörgum spurningum sem leita á mann.

.......................................................

Sæl og blessuð.

Það er nú leiðinlegt að vera að eyða svona fínum veðurdögum í að vera lasinn en maður er víst aldrei spurður að því. Nei, hiti hefur engin áhrif á mjólkina, hún er jafngóð eftir sem áður. Eiginlega er hún enn betri. Fyrir nokkrum dögum fékkst þú sýkingarvalda í kroppinn sem eru að gera þig veika núna. Þeir settu af stað mótefnamyndun til að berjast við sýkinguna. Þessi mótefni komast yfir í mjólkina þína og þannig er barnið tilbúið ef sýkingarvaldarnir gera atlögu að því og þess vegna er afar mikilvægt að þú gefir brjóst áfram til að koma í veg fyrir að barnið veikist.

Með von um að þú hressist sem fyrst.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. ágúst 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.