Brjóstagjöf og hiti

14.08.2004

Ég á þriggja vikna stúlku sem ég er með á brjósti og okkur heilsast báðum mjög vel og allt hefur gengið eins og í sögu. Nú er ég komin með smá hitavellu sem ég held að sé einhver umgangspest og var að velta því fyrir mér hvort hitinn hefði einhver áhrif á mjólkina og þar með barnið? Eða á ég bara að gefa henni áfram brjóst? Takk fyrir alveg frábæran vef, hann er búinn að nýtast okkur mæðgunum mjög vel og svara mörgum spurningum sem leita á mann.

.......................................................

Sæl og blessuð.

Það er nú leiðinlegt að vera að eyða svona fínum veðurdögum í að vera lasinn en maður er víst aldrei spurður að því. Nei, hiti hefur engin áhrif á mjólkina, hún er jafngóð eftir sem áður. Eiginlega er hún enn betri. Fyrir nokkrum dögum fékkst þú sýkingarvalda í kroppinn sem eru að gera þig veika núna. Þeir settu af stað mótefnamyndun til að berjast við sýkinguna. Þessi mótefni komast yfir í mjólkina þína og þannig er barnið tilbúið ef sýkingarvaldarnir gera atlögu að því og þess vegna er afar mikilvægt að þú gefir brjóst áfram til að koma í veg fyrir að barnið veikist.

Með von um að þú hressist sem fyrst.

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
13. ágúst 2004.