Brjóstagjöf og hormónalyf

17.03.2008

Ég á 19 mánaða gamalt barn sem er enn á brjósti kvölds og morgna. Nú standa mál þannig að ég er á leið í uppsetningu á frystum fósturvísum og fylgir því að ég þarf að fara í lyfjameðferð. Í fyrsta lagi er um að ræða Suprefact sem slekkur á þeim hluta hormónakerfis konunnar sem stjórnar starfsemi eggjastokkanna. Síðan er það Femanest sem inniheldur kvenhormónið estradíól. Ef þungun á sér stað þarf ég í lokin að bæta við prógesterónlyfi.

Nú finn ég engar upplýsingar um þessi lyf og brjóstagjöf en er það ekki rétt til getið hjá mér að ég verði að hætta með barnið á brjósti þegar ég hef þessa mikla lyfjatöku?

Með fyrirfram þökk, Margrét.


Sæl og blessuð Margrét.

Nei, það er líkast til ekki nauðsynlegt að hætta svo lítilli brjóstagjöf fyrir lyfjagjöfina. Það er hins vegar eins víst að mjólkurbirgðir dvíni þannig að kannski verður henni sjálfhætt. Það er reyndar misjafnt hvernig börn bregðast við svona breytingum svo þú þarft að vera við öllu búin.

Gangi þér vel.   

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
17. mars 2008.