Spurt og svarað

27. desember 2007

Brjóstagjöf og líðan móður

Góðan daginn!

Framleiðir líkaminn einhver hormón þegar kona er með barn á brjósti sem hafa áhrif á líðan hennar? Ég fann mun á líðan minni þegar ég varð ólétt, varð m.a. viðkvæmari og ekki eins og ég átti að mér að vera, og finnst mér það lítið hafa breyst síðan ég átti fyrir um 5 mánuðum. Einnig hef ég orðið vör við að sumar konur kvarti undan verkjum í liðum þegar þær eru með börn á brjósti. Ég hef fundið fyrir því og vildi þess vegna vita hvort þið gætuð frætt mig eitthvað um það?

Kær kveðja.


Sæl og blessuð.

Mér skilst að þú sért aðallega að spyrja um andlega og tilfinningalega líðan. Já,það eru efni í líkamanum sem hafa áhrif á hana á meðgöngu og í brjóstagjöf. Þessi áhrif eru missterk en næstum allar konur finna fyrir einhverjum breytingum. Það er kannski meira samspil margra efna um að ræða frekar en bara einu efni um að kenna. Í brjóstagjöf er þó Prólaktín og Oxýtósín sennilega áhrifaríkust. Það er gjarnan álitið að þetta sé leið náttúrunnar til að gera okkur að betri mæðrum. Við verðum næmari á að finna þarfir barnanna og upp í okkur koma sterkar verndandi tilfinningar. Þetta er langmest áberandi fyrstu 3 mánuðina en heldur áfram svo lengi sem barnið er á brjósti. Það er þó ekki þar með sagt að það skrúfist fyrir næmi fyrir barninu þegar brjóstagjöf lýkur heldur er svolítið búið að vinna í því að stimpla þetta varanlega inn í kerfið í okkur. Það má því kannski segja að við við verðum aldrei samar eftir meðgöngu og fæðingu barns sem er sennilega það sem náttúran ætlast til. Varðandi líkamleg einkenni eins og verki í liðum þá eru það að öllum líkindum eftirstöðvar af meðgöngunni og hverfur smám saman.          

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. desember 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.