Spurt og svarað

27. október 2005

Brjóstagjöf og matur

Sæl Katrín Edda!

Strákurinn minn er rétt að verða átta mánaða. Þegar ég fór með hann í vigtun fyrir um mánuði síðan kom í ljós að hann er búinn að hægja rosalega á þyngdaraukningunni og taldi hjúkrunarfræðingurinn að best væri að fækka brjóstagjöfunum til að fá hann til að borða meiri mat. Hún ráðlagði mér að gefa honum brjóst þrisvar á dag; á morgnana, yfir miðjan daginn og fyrir svefninn. Ég gerði þetta og hann er farinn að borða mun betur og sofa betur líka. Mér finnst hins vegar svo lítið að gefa honum bara þrjár gjafir á dag. Er það alveg nóg? Er betra fyrir hann að fá brjóst oftar? Ég hef alls ekki hugsað mér að hætta með hann á brjósti á næstunni, í fyrsta lagi um eins árs aldur. Vona að þú getir ráðlagt mér þetta!

Bestu kveðjur og þakkir fyrir góðan vef.

.......................................................................

Það var kannski ekki alveg rétta ráðið ef þyngdaraukning hafði hægt á sér að minnka þann mat sem gefur mestu næringuna per einingu. En þetta er því miður stundum svona að það er einhver misskilningur í gangi um brjóstamjólk og brjóstagjöf. Þú virðist vera mjög ánægð með að hann borði og sofi vel en að sjálfsögðu getur þú gefið honum brjóst nákvæmlega eins oft og þú vilt.
Það er gott að hann er farinn að fá einhvern mat og kann að tyggja hann, kyngja honum og verður gott af honum. En best er ef uppistaða næringar 8 mánaða barns er brjóstamjólk. Eins og þetta lítur út frá mínum bæjardyrum þá er þetta þitt barn og þú gefur því brjóst þegar það hentar þér.

Með ósk um langa og ánægjulega brjóstagjöf,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
27. október 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.