Brjóstagjöf og megrun

08.05.2008

Ég er með fyrirspurn í sambandi við brjóstagjöf og megrun. Ég er með 15 mánaða gamlan strák á brjósti og það er mjög mismunandi hvenær ég er að gefa honum að drekka. Rútínan hefur samt verið sú að ég er að gefa honum þegar ég kem heim úr vinnunni áður en hann fer að sofa og svo í morgunsárið. Þetta breytist svo eftir aðstæðum, meira þegar hann er veikur, öðruvísi um helgar stundum meira og stundum minna bara svona eftir því hvað hentar hverju sinni. Nú er ég farin að huga að því að taka mig virkilega á og reyna að losna við aukakílóin sem ég hlóð á mig á meðgöngunni. Ég hef verið að skoða einhverja svona kúra eins og Herbalife og þessháttar. Er eitthvað athugavert við að fara á þess háttar kúr þegar maður er með barn á brjósti. Eins er ég að spá í svokallaðar brennslutöflur, eru einhver sérstök efni sem þarf að varast eða eru þessar töflur kannski á algjörum bannlista.

Með von um svör, Bolla.


Sæl og blessuð Bolla.

Það er í sjálfu sér ekkert athugavert við að reyna að léttast þegar maður er með svo gamalt barn á brjósti. Þetta er líka orðin það lítil brjóstagjöf hjá þér. Það er þó alltaf skynsamlegt að fara tiltölulega hægt í sakirnar í þessum efnum og harðir kúrar geta verið varasamir. Herbalife ætti að vera í lagi og varðandi brennslutöflurnar þá eru þær mismunandi. Vertu bara viss um að þú lesir leiðbeiningarnar vandlega áður en þú byrjar og sért sátt við allt sem fram kemur. Svo er gott að hafa í huga að áframhaldandi brjóstagjöf hjálpar þér að halda þyngdinni niðri þótt hún sé orðin þetta lítil.

Gangi þér vel.            

Kær kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
8. maí 2008.