Spurt og svarað

02. mars 2008

Brjóstagjöf og næturvinna

Hæ, vil byrja á því að þakka fyrir mjög góða síðu.

Það sem ég vildi forvitnast um er að nú á ég að eiga mitt fyrsta barn um miðjan apríl. Ég er rosalega bjartsýn á að allt gangi vel og er búin að fá smáaukavinnu á næturnar í u.þ.b. hálfan mánuð í maí. Ég veit alveg að þetta er sennilega algjör vitleysa hjá mér en hugsunin sem er í gangi hjá mér er sú að konur hér á árum áður voru ekki að láta barneignir stoppa sig og því finnst mér að það sé allt í lagi að reyna þetta þar sem ég get alltaf hætt ef þetta gengur ekki. Alla vega, nú er formálinn búinn og þá kemur hin raunverulega spurning. Þar sem ég verð á ferðinni á næturnar úti við er mikil hætta á því að ég hætti að mjólka? Ég veit ég þarf að passa upp á það að verða ekki kalt en getur það að fara að vinna svona strax valdið því að ég hætti að framleiða mjólk? Ég vil taka það fram að ég verð ekki ein þarna á næturnar svo ég kemst alltaf frá til að gefa barninu og þar sem mér skilst að maður sofi nú hvort eð er ekkert svo mikið fyrstu vikurnar þá hafði ég nú bara hugsað mér að sofa á daginn einsog ég gæti.


Sæl og blessuð.

Það er ekkert að því að vinna með nýfætt barn. Eins og þú segir sjálf þá gerðu konur þetta í gamla daga. Konur eru kannski mistilbúnar að leggja mikið á sig snemma eftir barnsburð og það skiptir máli í hve góðu formi þær eru. Flestar vilja nú eiga fyrsta 1-2 mánuðinn í friði en þetta er misjafnt. Næturvinna er ekkert verri en hver önnur vinna m.t.t. mjólkurframleiðslu. Það er engin hætta á að hún hætti bara út af vinnunni ef hún er komin vel af stað á annað borð. Og á þessum tíma lífsins nýtist svefninn manni betur þannig að það er allt í lagi þótt hann sé í minni skömmtum.

Vona að gangi vel.

Bestu kveðjur,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
2. mars 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.