Brjóstagjöf og ónæmiskerfi barns

07.09.2008

Drengurinn minn er 13 mánaða og ég er enn með hann á brjósti. Nú langar mig hins vegar til þess að hætta með hann á brjósti, einfaldlega því mér er farið að þykja brjóstagjöfin óþægileg. Mér finnst hann bara vera að „snudda“ mig, og finnst eins og ekkert komi. Nú er hins vegar að koma haust og hann var að byrja á leikskóla. Því fór ég að hugsa hvort ég ætti ekki að halda brjóstagjöfinni áfram til þess að verja hann gegn veikindum í vetur. Hefur brjóstagjöfin einhver áhrif á það þegar barnið er orðið svona gamalt? Fær hann ennþá mótefni frá mér í gegnum brjóstamjólkina, eða var það bara á fyrstu mánuðunum? 

Með kærri fyrirfram þökk fyrir svarið.


Sæl og blessuð.

Brjóstagjöfin veitir að sjálfsögðu áfram vörn en hún er meira almenn. Það er að segja ef barnið veikist þá er það vægt og stutt. Það er hins vegar alltaf svo að þegar svo ung börn fara á meðal annarra barna þá kynnast þau öðrum bakteríum sem geta smitað þau. En eins og ég segi vægari sýkingar. Svo heldur að sjálfsögðu áfram vörnin gegn heimasýkingum. Það þýðir að það er ólíklegt að barnið smitist af þeim pestum sem þið á heimilinu fáið. Nú ef það gerist þá gildir það sama. Veikindin vara stutt og eru væg. Og bara svo þú vitir það þá er mjög líklegt að barnið þitt sé að fá miklu meiri mjólk hjá þér en þú getur ímyndað þér. Á þessum aldri blekkir það mann mjög þegar þau virðast rétt grípa í, „snuddast“ eða hvað það er kallað þá er að gusast ofan í þau ótrúlegt magn.

Vona að þetta hjálpi.             

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. september 2008.