Spurt og svarað

05. janúar 2014

Brjóstagjöf og sár

Sælar og takk fyrir góðan vef!
Mig langar að fá ráðleggingar með brjóstagjöfina hjá mér en mér finnst eins og hún sé að verða að engu. Ég er með 8 og hálfs vikna barn fætt um 15 merkur og var hún eingöngu á brjósti þar til hún var 7 vikna. Þá fór hún í 6 vikna skoðun og hafði einungis þyngst innan við 200gr. á 3 vikum. Ég er búin að vera með sár á geirvörtunum hér um bil frá fæðingu hennar og var á tímabili svo slæm að það fossblæddi. Þá fór ég í það að hvíla brjóstin, reyna láta sárin gróa með því að mjólka mig og gefa henni pela. Nú hefur hún verið að fá brjóstamjólk og nan1. Þegar ég fór að mjólka mig var ég að fá um120 ml úr báðum. En svo hefur það rokkað töluvert svo núna er ég orðin hálf hrædd um að vera missa mjólkina niður því það hefur farið minnkandi þó ég sé dugleg að mjólka mig. Ég er aðeins farin að geta lagt hana á aftur en það er samt aumt ennþá. Mexikanahatturinn hefur ekki gengið hjá okkur því hún tekur ekki brjóstið þegar hann er á. Hvað get ég gert til að auka hjá mér mjólkina því ég vil halda brjóstagjöfinni sem lengst. Ég lenti í ýmsu með eldri börnin en ekkert svona slæmt. Nú langar mig að athuga hvort þið getið ekki komið þessu á rétta leið hjá okkur.
Með fyrir fram þökk.

Sæl og blessuð!
Það er grundvallaratriði fyrir þig að fá aðstoð við að láta barnið grípa rétt vörtuna. Það er óásættanlegt fyrir þig að vera með sár allan þennan tíma og það er líka mjög erfitt að mjólka vel ef alltaf eru sár. Það er líka erfitt fyrir barnið að ná nægri mjólk ef það grípur alltaf vitlaust. Það verður ekkert mál fyrir þig að ná upp nægri framleiðslu á mjólk ef grundvallaratriðin eru í lagi. Þá þarftu að leggja oft og lengi á brjóst í nokkra daga og það er ekki hægt ef sár eru fyrir hendi. Þannig að ég ráðlegg þér að finna brjóstagjafaráðgjafa sem er vanur að aðstoða við brjóstagjafavandamál og fá leiðréttingu á ykkar vandamáli sem fyrst.
Með bestu óskum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
5. janúar 2014
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.