Brjóstagjöf og skata

19.12.2004

Ég er með  tæplega 5 mánaða barn á brjósti.  Er í lagi að borða skötu á Þorláksmessu?

....................................................................


Sæl og blessuð skötuóða móðir.

Jú, það er í góðu lagi að borða skötuna á Þorláksmessu. Þetta er ein máltíð af þessu á ári og breytir engu í mjólkinni. Og jafnvel þótt það væru fleiri máltíðir á árinu. Það skiptir engu hvort hún er mikið eða lítið kæst en passaðu þig að drekka í samræmi við þorstann sem skapast. Það er líka í lagi að borða hangikjöt og hamborgarahrygg og rauðkál og grænar baunir og nammi og allt þetta sem fylgir jólunum. Ekki borða í óhófi eða þar til þér líður illa (en það gildir jú alltaf). Það sem fylgir hins vegar jólunum og er miklu hættulegra það er spennan, streitan, æsingurinn,óreglan á svefni og venjum. Það hefur auðveldlega áhrif á brjóstabörn. Þannig að ef barnið er pirrað, grátandi eða ómögulegt kenndu þá ekki matnum um, heldur líttu á umhverfisþætti sem hafa breyst og innri spennu sem verður til þess að erfitt er að fá mjólkina til að flæða og skapar pirring fram og til baka.

Með bestu óskum um ánægjuleg og slök jól,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
18. desember 2004.