Spurt og svarað

01. maí 2014

Brjóstagjöf og svefnleysi

Ég ætla bara að vera alveg hreinskilin og segja að ég er alveg að verða geðveik. Klukkan er 5 um nótt og stelpan mín 11 mánaða, sem fór að sofa um kl. 10 er búin að vakna 5 sinnum. Ég er byrjuð að vinna og komin með nóg af brjóstagjöfinni. En það eina sem fær hana til að sofna aftur er að leggja hana á brjóst. Ef ekki, þá er bara grenjað þangað til að hún fær það sem hún vill. Hún vill ekki snuð og alls ekki pela. Og pabbinn hjálpar ekki mikið því hann hefur ekki brjóst. Ég er með 2 spurningar. 1. Ég er búin að minnka brjóstagjöfina á daginn niður í 1-2 á dag þannig að auka daggjöf er ekki inn í myndini. Svo gef ég henni alltaf helling af graut áður en hún fer að sofa svo hún sé pott þétt ekki svöng. Er eitthvað annað sem ég get prófað til að reyna að láta hana hætta á brjósti sérstaklega á nóttuni? 2. Hún sefur alveg ótrúlega illa á nóttunni. Þegar hún var yngri svaf hún upp í 8 tíma en núna mest 4 tíma, en oftast bara 1-2 tíma í senn. Ég veit að hún er að taka tennur og ég er nýlega búin að fara með hana til læknis til að gá hvort hún væri með eyrnabólgu. Ekkert svoleiðis. Ég er farin að spá hvort þetta geti hugsanlega verið bakflæði eða eitthvað annað?
Með kveðju.
Sæl og blessuð. Það er leitt að heyra hve erfiðar næturnar eru ykkur. Það er þó margt sem hægt er að gera til að auðvelda ykkur þetta ástand. 11 mánaða barn ætti að vera farið að borða margar máltíðir á dag. Það kemur ekki beint fram í bréfinu hvort svo er. Máltíðirnar ættu að vera næringarríkar og við hæfi aldurs svo það sé tryggt að hún fái vel af næringu. Næringarríkustu máltíðirnar gætu verið seinni hluta dags svo hún fari södd inn í nóttina. Svo er gott að gefa bað fyrir nóttina og einhverja róandi rútínu sem henni líkar. Síðan ætti hún fyrst um sinn bara að fá brjóst í annað hvert sinn sem hún vaknar. Í hitt skiptið má bjóða vatn eða stoðmjólk úr stútkönnu. Þetta er gert í 1-2 vikur. Þá er tekin 1 brjóstagjöf í viðbót út og látin líða 1-2 vika, svo 1 gjöf enn o.s.frv. Síðan gæti verið góð hugmynd ef barnið sefur alltaf stutt að nóttu að gefa ekki langan daglúr. Vona að þetta hjálpi eitthvað.


Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. maí 2014.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.