Brjóstagjöf og sveppasýking

01.08.2011
Hæhæ!
 Ég er með mitt 3 barn á brjósti og hefur alltaf gengið mjög vel. Allir 3 strákarnir hafa fengið skán á tunguna þannig að ég kippti mér ekki mikið upp við það þegar sá yngsti fékk skán. Hann aftur á móti fékk sveppi í munninn líka og ég þar af leiðandi á brjóstin. Það er mjög vont að gefa honum brjóst og er ég farin að nota Mexikóhattinn þegar ég gef honum. Fyrir viku síðan hafði ég samband við lækni og hann sagði mér að kaupa Peveril og bera þunnt lag á geirvörturnar og láta barnið sjúga kvölds og morgna. Málið er að mér finnst ég ekkert hafa lagast bara versnað þó að ég sé að bera á mig 2 á dag. Það eru komnar fleiri sprungur á gervörturnar og brjóstið er mjög rautt í kringum þær. Hvað á ég að gera svo þetta lagist? Skánin hjá drengnum er farin en hann er með nokkra hvíta bletti innan í kinnunum ennþá.
Kv. Katla.
 
Sæl og blessuð Katla!
Ég trúi vel að þetta sé ekki gott ástand. Þú hefur verið svo óheppin að velja leiðir sem aðeins gera sveppasýkinguna verri. Hattur á vörtur með sveppasýkingu gerir yfirleitt ástandið aðeins verra og Pevaryl virkar oft ekki á sveppi sem eru á vörtum og er þar að auki ekki hægt að setja í munn barna. Lýsingin hjá þér bendi til að sýkingin fari versnandi hjá ykkur báðum og því liggur á að byrja rétta meðferð. Þú þarft að fara í skoðun og mat hjá einhverjum þeim aðila sem er vanur sveppasýkingum hjá mjólkandi mæðrum. Það gæti verið brjóstagjafaráðgjafi, ljósmóðir, læknir eða hjúkrunarfræðingur. Í framhaldi af því færðu svo rétta meðferð og leiðbeiningar sem gætu hjálpað þér.
Með bestu óskum.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. ágúst 2011.