Bólur á meðgöngu

07.04.2008

Sælar,

Geng nú með annað barn mitt og öll að steypast út í bólum....aftur. Ég var alveg hræðileg á fyrri meðgöngunni, fékk bólur í framan, bakið, bringuna og handleggi. þegar barnið var svo orðið ca. 9 mán. hvarf þetta nánast alveg og ég hef verið fín í húðinni síðan (í 2 ár) en nú er þetta að byrja aftur. Ég passa matarræðið og þríf húðina vel daglega, en eru einhver krem (eða aðrar aðferðir)sem þið getið ráðlagt mér að nota, sem halda þessu í skefjum? fór til húðsjúkdómalæknis eftir síðustu meðgöngu og þá var mjög takmarkað sem ég gat notað vegna brjóstagjafarinnar, en er það eins lítið úrval þegar maður er með barni?

kveðja,X


Komdu sæl

Meginreglan er sú að það er meira sem þú getur gert með barnið á brjósti en á meðgöngu a.m.k. hvað varðar lyf sem þú getur tekið inn.  Húðsjúkdómalæknar hafa kannski önnur úrræði eins og sérstök ljós ( sem ég veit ekki hvort gagnast í þínu tilfelli ) ef þú leitar til þeirra.  Eins getur verið ágætt að fara til snyrtifræðings og fá ráðleggingar þar og húðhreinsun.

Þú ert að gera það sem ég myndi ráðleggja þér þ.e. að hreinsa húðina vel en sennilega er þetta hormónatengt þar sem þetta kemur bara á meðgöngunum.

Gangi þér vel

Rannveig B. Ragnarsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.
7. apríl 2008.