Spurt og svarað

01. mars 2009

Brjóstagjöf og sýklalyf

Góðan dag og takk fyrir mikilvægan og fróðlegan vef!

Mínar vangaveltur eru þessar. Talað er um að börn eigi helst að vera eingöngu á brjósti í sex mánuði og að allt annað sem fari inn fyrir varir þeirra geti raskað kerfinu. Nú fékk fjögurra mánaða gamall sonur minn eyrnabólgu og var settur á sýklalyf (Flemoxin). Hann hefur hingað til aldrei fengið neitt ofan í sig annað en brjóstið og d-dropa. Ég er enn að passa að hann fái ekkert annað en brjóstamjólkina. Og þá er spurningin hvort það sé fyrir ekki neitt, að þetta sé hvort eð er ónýtt. Með von um svör.

Ein áttavillt.


 

Sæl og blessuð Ein áttavillt!

Það er von þú spyrjir. Þetta er eitt af þessum atriðum sem alltaf er deilt um. Þeir hörðustu segja að eingöngu á brjósti þýði að ekkert annað en brjóstamjólk fari inn fyrir varir barnsins. Þar með teljist vítamín, steinefni og lyf. Flestir skilgreina hins vegar eingöngu brjóstagjöf sem brjóstamjólk með vítamínum þegar tími er kominn á þau og  lyf ef þörf er á. Það er ekki talið trufla enda magnið mjög lítið miðað við alla lítrana sem gusast niður í barnið af mjólk. Þannig að þú mátt ekki líta svo á að allt sé unnið fyrir gýg. Það er alls ekki svo. þú ert í mjög góðum málum. Þér er óhætt að halda svona áfram til 6 mánaða aldurs barnsins.

Gangi þér vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
1. mars 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.