Spurt og svarað

22. mars 2005

Brjóstagjöf og tamningar!

Sæl Katrín.

Vil þakka þér fyrir gott svar sem þú gafst mér síðast! Brjóstagjöfin gengur svaka vel hjá mér og stelpan mín þyngist vel. Nema eitt atriði. Alltaf eiginlega nú orðið nema á nóttunni þá er snúllan mín með þvílík ólæti á meðan hún drekkur. Hún skellir sér af vörtunni og á hana endalaust sem gerir það að verkum að hún er alveg hrikalega lengi að drekka. Ég er frekar lausmjólka og hef lesið ráðin sem þú hefur gefið hér,en það bara virkar ekki. Eins og ég sagði þér síðast er ég búandi á Spáni og hjúkkan hér sagði mér að ég þyrfti að temja krakkann: 10 min á öðru brjósti og 10 á hinu,búmm og brjóstagjöfin búin! Eftir smá tíma myndi stelpan læra að drekka sem hún þarf á þessum 20 min. Ég hef ekki viljað prufa þetta því mín snúlla sofnar aldrei á brjóstinu en það fer bara svo mikill tími í þetta flakk hennar þannig að þegar hún er með munninn á
vörtunni er hún að sjúga!Finnst þér rétt þessi 20 min regla? Er það rétt að það kemur minni mjólk þegar líða fer á kvöld,að mjólkin sé mest á morgnana? Því stundum finnst mér hún vera óróleg þegar ég er búin að gefa henni seinnipartinn þó hún sé búin að sjúga mikið og spái í hvort hún sé ekki södd því ef ég myndi ekki taka hana á endanum af brjóstinu myndi hún gjarnan vilja vera þar endalaust. Jæja,ég gæti spurt þig alveg endalaust kona!

Kveðja frá loksins sumarsól á spáni mamman.

.........................................................................


Sæl og blessuð sumarsól.

Liggur ekki töfralausnin bara í einni setningunni hjá þér? „Alltaf eiginlega nú orðið nema á nóttunni“. Hvað er það sem er öðruvísi hjá ykkur á nóttunni? Gefurðu í öðrum stellingum? Er meiri ró og friður? Ertu sjálf afslappaðri? Eitthvað annað? Kannski hjálpar að líkja eftir einhverjum þeim aðstæðum sem ríkja á nóttunni.

Svo er það ákveðið þroskamerki hjá börnum að fara að láta eins og kjánar í gjöfinni. Þau reyna gjarnan að teygja vörtuna í allar áttir, reyna að gera eitthvað annað á meðan þau drekka, skoða, grípa, þukla, brosa, færa sig, sleppa og grípa o.s.frv. Þetta er nokkuð sem mæður verða yfirleitt að umbera. Börn er misvirk í þessu allt frá því að vera nokkuð róleg upp í að mæðrum finnst þau bæði vera í fullri líkamsrækt. Það er því miður ekki hægt að fullyrða að þetta sé bara tímabil því sum halda þessu áfram að einhverju marki nokkuð lengi. Jákvæði parturinn er að flestar mæður aðlagast þessu fljótt og það hættir alveg að trufla þær. Það eina sem þarf að passa er að þetta stúss á börnunum sé ekki að draga gjafirnar á langinn.

Ég er nú ekki mikið fyrir tamningar á börnum þótt mér finnist þau þurfa visst aðhald og kennslu þegar þau stækka. Með auknum aldri og þroska verða börn tæknilega færari í að ná mjólkinni hraðar. Því styttast gjafir gjarnan þegar líður á. Börn sem drekka í 20 - 30 mín. fyrstu vikurnar fara gjarnan niður í um 10 mín. Ég myndi því ráðleggja þér að miða við 10 mín. Ef vesenið á barninu er þá farið að pirra þig þá er þér óhætt að taka hana af. Ef þú ert hins vegar farin að aðlagast og bröltið truflar þig ekki þá er allt í lagi að leyfa henni að vera 20-40 mín. í viðbót. Þú getur verið viss um að hún er nokkurn vegin södd eftir 10 mín. Hitt er það sem kalla mætti þroskabrölt og það er líka mikilvægt að hafa með stundum.

Já það er rétt að það hægist aðeins á mjólkurframleiðslu eftir því sem líður á daginn. Sem gerir það að verkum að þarf stundum að vanda gjafirnar sérstaklega á kvöldin. Flestar mæður fara út í að skipta þá oftar um brjóst í gjöfinni til að tryggja að barnið fái nægju sína. Sumar skipta á 10 mín. fresti, aðrar á 5 mín fresti eða oftar.

Vona að þú græðir eitthvað á þessum svörum. Það er líka farið að hlýna hér.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. mars 2005.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.