Spurt og svarað

09. nóvember 2006

Brjóstagjöf og vaktavinna

Sæl.

Ég er með 10 mánaða gamla stúlku á brjósti og í dag tekur hún 3-4 gjafir. Hún er alltaf fljót á brjóstinu, þ.e. hún drekkur lengst kannski á morgnana og þá í kringum 5 mínútur en er áhugaminni þegar líður á daginn og lætur auðveldlega truflast og hættir þá kannski eftir 2 mínútur, alveg sama hvað ég reyni að halda henni við efnið. Svo rukkar hún mig samt um gjafir ef þær koma ekki á réttum tíma! Nú er ég að fara að vinna og vinn vaktavinnu og planið var að reyna að halda áfram með 2-3 gjafir á dag. Ég reyndi að mjólka mig til að eiga í kvöldgjöf fyrir hana á meðan ég er í burtu, en það gekk ekki vel. Ég er komin úr æfingu með þetta og svo finnst mér eins og losunarviðbragðið láti standa á sér. Þrátt fyrir að ég hafi farið í heitt bað áður, haft mynd af henni fyrir framan mig á meðan ég pumpaði og drakk vatn á meðan. Er eitthvað sem ég get gert til að auðvelda mér þetta þannig að ég geti haldið brjóstagjöfinni áfram? Mér finnst t.d. ekki aðlaðandi kostur að láta nær 16 tíma líða á milli þess sem ég legg hana á og þyrfti helst að geta mjólkað mig áður en ég fer að sofa. Einnig þolir hún ekki kúamjólk eða soya þannig að mér finnst þetta þeim mun dýrmætari dropar!


Sæl og blessuð!

Það er vel samrýmanlegt að vera í vaktavinnu og hafa barn á brjósti eins og dæmi sanna. Það getur hins vegar verið svolítið erfitt að byrja og að finna rétta taktinn en svo kemur þetta. Ég skil ekki alveg hvernig þú færð út 16 tíma hlé á gjöfum. Það er auðvitað enn erfiðara ef vaktirnar eru svona langar að viðhalda brjóstagjöfinni. Ég hélt að það væru lög í þessu landi sem banna svona langar tarnir. „Vaktavinnubörn“ aðlagast því yfirleitt að fá brjóst fyrir og eftir vakt og svo einhvern tíma á tímanum sem mamma er heima. Ef þú vilt mjólka þig til að eiga fyrir barnið þegar þú ert í vinnu er það auðvitað mjög gott. Vandamálið sem þú ert að kljást við er þetta með að láta mjólkina flæða þegar notuð er pumpa. Það getur lagast smám saman og einnig geta ráðin sem þú ert að nota hjálpað. Ég hef engin „trix“ til viðbótar. Það eru margar mæður í svipuðum sporum sem verða að mjalta 2-3 sinnum til að eiga í eina gjöf. Ég held að þú verðir að gera það þannig til að byrja með.

Gangi þér vel,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
9. nóvember 2006.





Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.