Brjóstagjöf og þyngd

04.08.2005
Sæl,
Ég er með rúmlega 7 mánaða gamla dóttur mína á brjósti, en ég er svo svekkt með þessar upplýsingar um að brjóstagjöf ætti að brenna kaloríum. Ég er ennþá með tæplega 10kg. sem bara hanga á mér. Ég er dugleg að fara út að ganga með hana en ekkert gerist.  Þetta er sest svo á sálina á mér að ég hef varla hugsað um annað en að ég sé of þung og finnst ég feit sl. 2 mánuði.
Er það eitthvað fleira sem ég get gert til að flýta fyrir að kílóin fjúki?

Með von um hjálp,
Gurrý

 
...........................................
 
Sæl Gurrý og takk fyrir fyrirspurnina.
 
Það er rétt að á meðan á brjóstagjöf stendur er kaloríuþörf okkar meiri en venjulega, meira að segja meiri en á meðgöngunni þannig að ef við borðum ekki fleiri kaloríur en venjulega ættum við að brenna einhverju af þessari umframfitu sem safnast á okkur á meðgöngunni.  Hinsvegar er það nú svo að við borðum flestar bara þegar við erum svangar og erum ekki endilega að telja kaloríurnar ofan í okkur á meðan við erum með barnið á brjósti.  Rannsóknir sýna að flestar konur ná fyrri þyngd á innan við einu og hálfu ári eftir fæðinguna þannig að það er of snemmt að örvænta.  Hinsvegar getur þú farið að stunda meiri leikfimi heldur en gönguferðir og aukið brennsluna þannig.  Hugsanlega gætir þú eitthvað dregið úr kaloríunum sem þú borðar en ég mæli alls ekki með neinum megrunarkúr fyrr en þú ert hætt með barnið á brjósti.
 
Gangi þér vel
 
Rannveig B. Ragnarssóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
04.08.2005.