Spurt og svarað

04. ágúst 2005

Brjóstagjöf og þyngd

Sæl,
Ég er með rúmlega 7 mánaða gamla dóttur mína á brjósti, en ég er svo svekkt með þessar upplýsingar um að brjóstagjöf ætti að brenna kaloríum. Ég er ennþá með tæplega 10kg. sem bara hanga á mér. Ég er dugleg að fara út að ganga með hana en ekkert gerist.  Þetta er sest svo á sálina á mér að ég hef varla hugsað um annað en að ég sé of þung og finnst ég feit sl. 2 mánuði.
Er það eitthvað fleira sem ég get gert til að flýta fyrir að kílóin fjúki?

Með von um hjálp,
Gurrý

 
...........................................
 
Sæl Gurrý og takk fyrir fyrirspurnina.
 
Það er rétt að á meðan á brjóstagjöf stendur er kaloríuþörf okkar meiri en venjulega, meira að segja meiri en á meðgöngunni þannig að ef við borðum ekki fleiri kaloríur en venjulega ættum við að brenna einhverju af þessari umframfitu sem safnast á okkur á meðgöngunni.  Hinsvegar er það nú svo að við borðum flestar bara þegar við erum svangar og erum ekki endilega að telja kaloríurnar ofan í okkur á meðan við erum með barnið á brjósti.  Rannsóknir sýna að flestar konur ná fyrri þyngd á innan við einu og hálfu ári eftir fæðinguna þannig að það er of snemmt að örvænta.  Hinsvegar getur þú farið að stunda meiri leikfimi heldur en gönguferðir og aukið brennsluna þannig.  Hugsanlega gætir þú eitthvað dregið úr kaloríunum sem þú borðar en ég mæli alls ekki með neinum megrunarkúr fyrr en þú ert hætt með barnið á brjósti.
 
Gangi þér vel
 
Rannveig B. Ragnarssóttir,
hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir.
04.08.2005.
Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.