Spurt og svarað

22. júní 2008

Brjóstagjöf samhliða meðgöngu

Sælar, og takk fyrir þennan fróðlega vef.

Ég á tvö börn, tíu ára strák og átta mánaða stúlku og er komin um átta vikur á leið með þriðja barnið. Mig langaði til að vita hvort einhver ráð væru til að halda brjóstagjöfinni áfram sem lengst samhliða meðgöngunni? Það var barningur að halda stelpunni að brjóstinu, engin alvarleg vandamál svosem. Næg mjólk, engin sogvilla og allt í grunninn mjög eðlilegt, en hún virtist bara ekki vera mjög hrifin af þessu! Mér tókst það með harðfylgi að hafa hana eingöngu á brjósti fyrstu sex mánuðina. Hún er nú farin að borða fasta fæðu og eftir að hún fór að gera það þá hefur brjóstagjöfin gengið betur, hún er mun sáttari. Hún fær nú u.þ.b. 5 gjafir á sólarhring og okkur finnst þetta báðum óskaplega notalegt. Ég er reyndar helaum í geirvörtunum þessa dagana en það er alveg þess virði. En núna er ég hrædd um að ná ekki að halda áfram. Mér finnst það svo sorgleg tilhugsun að þurfa að hætta brjóstagjöfinni núna eftir allan barninginn, einmitt þegar allt er farið að ganga svo vel. Ég hef lesið að á ákveðnum tímapunkti meðgöngunnar hætti maður að framleiða mjólk og fari aftur að framleiða brodd, þá fyrir ófædda barnið. Mér skilst að mörg börn hætti þá að vilja brjóstið þótt sum haldi vissulega sínu striki. Það sem ég er að velta fyrir mér er það hvort einhver sérstök ráð eru til að fá barnið til að halda áfram þrátt fyrir þetta?

Með bestu kveðju og fyrirfram þökk.Sæl og blessuð.

Brjóstagjöf eldra barns á meðan gengið er með nýtt er konum miserfitt. Það er ekki alltaf í okkar höndum. Harðákveðnustu brjóstagjafakonur hafa þurft að láta í minni pokann fyrir öflum náttúrunnar. Svo er þetta í öðrum tilfellum svo létt að konur finna alls ekki fyrir því. Því miður get ég alls ekki vitað hvoru megin við línuna þú lendir. Ég get aðeins ráðlagt þér að halda ótrauð áfram eins og ekkert hafi í skorist. Ef barnið verður erfitt við brjóstið verðurðu að taka á því af skynsemi með þeim ráðum sem þú kannt og vona það besta. Ef þú lendir í því að barnið hafni brjóstinu og þú finnir enga leið til að komast yfir það þá verðurðu líka að vera tilbúin að taka því og snúa þér að því að hlakka til næstu brjóstagjafar. 

Það er ekki þannig að konur hætti að framleiða mjólk einhvern tíma á meðgöngunni og fari að framleiða brodd. Vandamálið er frekar smávægilegar sveiflur í framleiðslu og bragði mjólkur sem verða oft á meðgöngunni í tengslum við hormónabreytingar meðgöngunnar. Sum börn eru mjög viðkvæm fyrir þessum breytingum á meðan önnur taka ekki eftir þeim og allt þar á milli. Allra síðustu daga meðgöngunnar breytist mjólkin svo smám saman yfir í að verða broddríkari til að vera tilbúin fyrir nýja barnið. Það truflar eldri börnin ekkert endilega en koma nýburans getur hins vegar gert það.

Með bestu óskum um gleðilega meðgöngu,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
22. júní 2008.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.