Brjóstagjöf sem getnaðarvörn

02.03.2004

Góðan daginn!

Mig langaði að spyrjast fyrir um tengsl frjósemi og brjóstagjafar.  Nú veit ég að brjóstagjöf er alls ekki „örugg“ getnaðarvörn, enda er það ekki málið hjá mér.  Mig langaði hinsvegar að spyrja hvort áframhaldandi brjóstagjöf (barnið er eins og hálfs árs gamalt).  Tekið skal fram að brjóstagjöf er minnkandi, helst í kringum svefn.  Getur þessi brjóstagjöf ásamt aldri (móðirin er 40 ára) haft einhver áhrif á að þungun eigi sér síður stað? 

.............................................................................

Mig langar að byrja á því að fjalla um brjóstagjöf sem getnaðarvörn áður en ég kem að svarinu til þín.  Brjóstagjöf er nefnilega mjög vanmetin sem getnaðarvörn en samkvæmt rannsóknum getur brjóstagjöf nefnilega verið 98-100% örugg getnaðarvörn!  Til þess að hægt sé að reikna með þessu öryggi þarf að uppfylla þrjú skilyrði:

  • Tíðablæðingar er ekki byrjaðar á ný (blæðingar á fyrstu 8 vikunum eru ekki taldar vera tíðablæðingar).
  • Barnið fær ekki reglulega ábót og ekki líða meira en 4 tímar á milli gjafa á daginn eða 6 tímar á nóttunni (barnið er eingöngu eða nær eingöngu á brjósti)
  • Barnið er ekki eldra en 6 mánaða.

Ef eitthvað af þessum skilyrðum er ekki uppfyllt er ekki hægt að treysta á brjóstagjöf sem getnaðarvörn en séu öll skilyrðin uppfyllt er þetta mjög örugg getnaðarvörn.

Þú tekur ekki fram hvort tíðablæðingar hafi byrjað á ný eftir fæðingu.  Ef þú hefur ekki haft tíðablæðingar er ekki líklegt að brjóstagjöfin á þessu stigi sé orsökin fyrir því.  Til þess að þungun geti orðið þarf að verða egglos og tíðablæðingar verða í kjölfarið á egglosi verði ekki þungun.  Svo framarlega sem þú hefur egglos átt þú möguleika á að verða þunguð.  Samkvæmt tölfræðinni eru reyndar minni líkur á þungun eftir því sem parið er eldra en það er bara svo margt annað sem spilar inn í frjósemina.  

Gangi þér vel - kær kveðja,                                                                        

Anna Sigríður Vernharðsdóttir, hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir - 2. mars 2004.