Spurt og svarað

06. október 2004

Brjóstagjöf tvíbura

Sæl. 

Ég er með þriggja mánaða tvíbura sem fengu þurrmjólkurábót strax á öðrum degi (ég vissi ekki betur en það væri það eina rétta) og vegna ýmissa aðstæðna sem komu upp á í sængurlegunni á spítalanum gekk brjóstagjöfin mjög illa.  Fljótlega urðu þeir góðu vanir og fóru að fá pela í nær hverri gjöf.  Ég að vísu mjólkaði mig og þeir fengu því brjóstamjólk líka í pela.  Allar gömlu mömmurnar í kringum mig fullvissuðu mig um að þeirra börn hefðu sko bara verið á brjósti í nokkra daga eða jafnvel ekki neitt og ekki til heilbrigðari börn o.s.frv.  Mér leið hræðilega yfir því hvað brjóstagjöfin gekk illa og fannst ömurlegt að þetta gæti ekki gengið upp bara vegna þess hvernig hlutirnir æxluðust leiðinlega á spítalanum.  Með þrjósku og ótrúlegri þolinmæði (sem ég vissi hreinlega ekki að ég ætti til) tókst mér að koma þeim á brjóst aftur og nú er það þannig að þeir fá þurrmjólk í pela 1-2 sinnum á sólarhring (í mesta lagi) í stað hverrar gjafar.  Ég er nú bara nokkuð stolt af sjálfri mér en mér finnst ég samt ekki kunna nógu vel á brjóstagjöfina. Kannski hef ég ennþá ekki nægilega mikla trú á mér eftir erfiða byrjun (þetta var vægast sagt hryllilegt).

Mér finnst þeir stundum vera svo stutt á brjóstinu, kannski bara 5-10 mínútur.  Þeir sleppa geirvörtunni og það er ekki fræðilegur möguleiki fyrir mig að koma henni upp í þá aftur.  Getur verið að þeir séu þá búnir að fá nóg (þeir voru alltaf svo rosalega lengi að drekka hjá mér áður)?  Ég er nefnilega alltaf hrædd um að þeir séu ekki að drekka nóg hjá mér.  Samt eru þeir alveg værir og góðir og brosa og virðast sáttir eru reyndar oft með hendurnar uppi í sér og naga þær á fullu eins og þeir séu svangir en taka samt ekki brjóstið.  Væla bara og orga jafnvel hástöfum ef ég reyni að leggja þá á brjóstið.

Stundum er líka eins og þeir séu of þreyttir til að taka brjóstið og þá orga þeir eins og ljón og eru bara óhuggandi þangað til þeir fá pelann. Ég hef freistast til að gefa þeim pela svona 1-2 sinnum á sólahring ef allt hefur orðið vitlaust.  En er það ekki í lagi á meðan þeir taka brjóstið í öll hin skiptin?  Ég á svona hjálparbrjóst og hef reynt að nota það en það hefur gengið illa.

Afsakaðu langlokuna en mig langar svo að þetta gangi upp hjá mér og þetta eru hlutir sem ég er alltaf að velta fyrir mér. 

Kveðja, tvíburamamma.

..............................................................................

Sæl og blessuð tvíburamamma

Mér þykir mjög leitt að heyra hversu illa gekk hjá þér að koma brjóstagjöfinni af stað á spítalanum. Það kemur því miður ekki á óvart, því mér finnst oft vanta verulega upp á þann stuðning sem tvíburamömmur þurfa á að halda fyrstu dagana við brjóstagjöfina. Nú, þú ert ekki ein um að vera stolt af þér fyrir þrjóskuna og þolinmæðina því ég er það líka. Mér finnst þetta hreint afrek hjá þér að koma börnunum aftur yfir á brjóstið og ég veit að það hefur kostað verulega vinnu. Það er líklega rétt að þú hafir ekki næga trú á eigin hæfileikum til mjólkurframleiðslu enda er það erfitt þegar sú trú hefur verið rækilega fótum troðin á fyrstu dögunum. Segðu við sjálfa þig oft á dag „ég get þetta með léttu“.

Varðandi fyrstu spurninguna þá er mjög eðlilegt að gjafirnar styttist eftir því sem barn verður tæknilega flinkara að sjúga brjóst. Þriggja mánaða barn ætti að drekka í 5-15 mínútur en gott væri að það tæki 1 gjöf á sólarhring svolítið langa svona bara upp á að sjúga sérstaklega vel úr brjóstinu annað slagið. Barn sem sleppir brjóstinu er búið að fá nóg, engar áhyggjur. Nú ef ekki (org) þá fær það bara aftur eftir 20 mín. Ekkert vandamál.

Önnur spurning varðandi svo mikla „þreytu“ að barn tekur ekki brjóst þá er það dularfyllra. Barn sem er þreytt það náttúrlega sefur, það er erfitt að vekja það og það heyrist ekki píp frá því. Ef barnið orgar þá er því eitthvað ekki að skapi. Þú þarft að reyna að finna út úr því en mundu að þú kemur reiðu barni ekki á brjóst. Fyrst er að róa barnið og ná því niður, svo er hægt að bjóða því brjóstið hægt og varlega. Barn orgar ekki af því það vill pela. Þér er alveg óhætt að treysta því. Nú er rétti tíminn fyrir þig að taka út þessa 1-2 pela á sólarhring og treysta eigin líkama til að gera það sem hann var skapaður til.

Gangi þér allt í haginn.

Kveðja,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
6. október 2004.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.