Spurt og svarað

19. október 2014

Brjóstagjöf tvíbura

Sælar og takk fyrr góðan vef!

Ég eignaðist tvíburadrengi þann 12.ágúst og eru þeir fæddir 33.vikur sléttar. Við vorum á Vöku í 3 vikur. Þetta eru hraustir og stórir strákar miðað við meðgöngulengd. Ég er með báða á brjósti og mjólka mig í þokkabót um 5sinnum á sólarhring til að eiga brjóstamjólk inni í ísskáp ef ég vil bæta á. Við gefum brjóstamjólk í pela 1sinni á nóttu þar sem það er fljótlegra. Öll hin skiptin eru þeir yfirleitt á brjóstinu. Minni tvíburinn er mjög duglegur en drekkur samt ekki alveg eins vel af brjóstinu eins og hinn. Stundum hef ég verið að gefa brjóstamjólk sem ábót úr pela og er það þá bara um 20-30ml .í örfá skipti yfir daginn. Eins ef ég er mjög þreytt á kvöldin þá fá þeir eða annar þeirra brjóstamjólk úr pela fyrir nóttina. Ég á heila skúffu inni í frysti af mjólk. Ég vil halda áfram að mjólka mig til að eiga. Mín spurning er. Er ég að gera einhvern skandal við að bjóða bæði pela og brjóst þó svo að þetta sé brjóstamjólk í öll skiptin? Missi ég nokkuð niður mjólkina? Annað er að þeir "gúlpa" stundum upp mjólk og gæti það verið smá bakflæði. Mig langar að spyrja hvort þetta væri eitthvað sniðugt fyrir þá? Þeir eru pínu pirraðir og virðist loft vera að valda pirringnum.

Kær kveðja!
Sæl og blessuð og til hamingju með góða brjóstagjöf!

Þetta hljómar hjá þér eins og í góðu gengi. Og þá er spurning hvort nokkru eigi að breyta. Frá mínu sjónarhorni er kerfið óþarflega flókið og mikil vinna fólgin í öllum þessum mjöltum og pelastússi en eins og ég segi. Ef það gengur upp fyrir þig og þú ert sátt þá er það hið besta mál. Að mínu mati finna flestar tvíburamæður fljótt upp eitthvert kerfi sem virkar fyrir þær. Mér finnst mikilvægt að hjálpa þeim sem gengur það illa en að sama skapi er ég treg til að skipta mér af því sem vel gengur. Nei það er ekki hætta á að þú "missir" mjólkina ef þú ert að fá svo mikla örvun beint á brjóstin. Þeir gúlpa sjálfsagt meira eftir pela vegna hraðara flæðis en það er þá kannski meira spurning um aðra "roptækni". Vona að áfram gangi svona vel.

Bestu óskir.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
19.október 2014.


Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.