Spurt og svarað

06. febrúar 2007

2 æðar í naflastreng

Sæl og takk fyrir frábæran vef.

Ég fór í sónar um daginn og fékk þar að vita að það eru aðeins tvær æðar í naflastrengnum í stað 3ja. Mér fannst ég ekki fá nógu góðar upplýsingar um hvað þetta gæti þýtt, getur þú gefið mér einhverja fróðleiksmola um þetta

Með fyrirfram þökk.Komdu sæl og takk fyrir að leita á ljósmóðir.is!

Þessi galli  sem kom í ljós hjá þér í sónar er frekar sjaldgæfur (skv. heimildum um 0,2-1% tíðni) og eins og svo oft þá er erfitt að segja nákvæmlega hvað þetta þýðir. Mér finnst að þar sem þú upplifir að þú hafir ekki fengið nægilega góð svör fyrir þig sjálfa ættir þú að hafa aftur samband við lækni á fósturgreiningardeild Landspítala sem getur svarað betur spurningum þínum og vangaveltum, nú þegar þú hefur aðeins haft tíma til að melta þetta. Eins og þér hefur örugglega verið sagt hjá ljósmæðrum og læknum á fósturgreiningardeildinni munt þú þurfa að vera í nánara eftirliti vegna þessa, sérstaklega þegar líða tekur á meðgönguna.

Varðandi nokkra fróðleiksmola (og ég endurtek að hér er mikilvægt að þú talir aftur við lækninn þinn á fósturgreiningardeildinni og ljósmóðurina þína í mæðravernd sem getur gefið „persónulegri“ svör) þá hafa rannsóknir sýnt að börn sem eru með 2 æðar í naflastreng hafa meiri líkur á að vera með einhverja  byggingargalla. Þetta ástand er algengara hjá tvíburum, fyrirburum og hjá börnum sem fæðast lítil miðað við meðgöngulengd. Að vera með 2 æðar í naflastreng gæti verið nánast algjörlega meinlaust fyrirbæri en gæti líka þýtt að um einhverja byggingargalla sé að ræða hjá barninu. Hjá 20-30 % barna er um stærri byggingargalla að ræða og stundum fleiri en einn, eins og t.d. hjartagalla og/eða byggingargalla í meltingarvegi. Hjá 70-80% barna eru þetta hins vegar mun minni gallar eins og byggingargallar í nýrum sem oft læknast af sjálfu sér og valda engum kvillum til langframa. Þó er í sumum rannsóknum mælt með því að fylgst sé sérstaklega með nýrum á meðgöngu í sónar.

Með von um að þessir fróðleiksmolar (sem alls ekki eru tæmandi) valdi þér ekki óþarfa áhyggjum, yfirleitt er þetta fyrirbæri sem leysist farsællega. Gangi þér vel og  njóttu meðgöngunnar.

Bestu kveðjur,

Steinunn H.Blöndal,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
6. febrúar 2007.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.