Spurt og svarað

26. september 2009

Bólusetning gegn svínaflensu. Er hún örugg á meðgöngu?

Sælar og kærar þakkir fyrir góðan vef.

Sóttvarnarlæknir hefur gefið út tilmæli til ákveðins hóps sem skilgreindur er sem forgangshópur í bólusetningu gegn H1N1.Í þeim hópi eru þungaðar konur. Eftir því sem ég get best lesið úr tilkynningunni þá er líkur á því að þunguð kona þurfi að leggjast á sjúkrahús vegna flensunnar 0,3 á hverjar 100.000 íbúa. Sem segir þá að líkur á sjúkrahúslegu þungaðra kvenna á Íslandi þar sem búa um 300.000 manns er ein kona. Í sömu tilkynningu er talað um að mótefnið sé óprófað en þó sé ekki ástæða til annars en að telja það jafn hættulaust og þau mótefni sem hingað til hafa verið notuð í flensubólusetningum. Hingað til hafa þungaðar konur yfirleitt ekki verið bólusettar gegn flensu og fyrir því hljóta að vera einhverjar ástæður eins og að ekki sé með fullu sannað að bólusetning sé konu og fóstri algjörlega skaðlaus. Það væri gott ef þið gætuð haft milligöngu um betri upplýsingagjöf til þungaðra kvenna,kosti bólusetningarinnar og hvort og hvaða áhætta getur fylgt henni. Hvort búið sé að prófa bóluefnið og hvað þær prófanir hafa sýnt.

Kær kveðja, Sara


Af hverju er mælst til þess að þungaðar konur verði bólusettar við svínaflensunni? Er það ekki hættulegt fyrir fóstrið? Skiptir máli hvað langt maður er gengin með barnið? Er málið kannski að af tvennu illu sé talið skárra að ófrískar konur séu bólusettar heldur en að þær fái flensuna? En sennilega best að vera hvorki bólusettur eða fá flensuna.


Sælar!

Það er greinilegt að barnshafandi konur eru uggandi vegna svínaflensunnar og bólusetninga gegn henni því okkur hafa borist margar fyrirspurnir varðandi þetta að undanförnu, m.a. þessar tvær sem við birtum hér.

Það er skiljanlegt að þið hafið áhyggjur af þessu því það er svo margt sem þarf að varast á meðgöngu og mörg lyf sem ekki er óhætt að nota.

Þó ekki hafi verið mælt með inflúensubólusetningu hér á landi fyrir barnshafandi konur þá hefur það tíðkast víða erlendis í mörg ár og því er komin reynsla á inflúensubólusetningar hjá barnshafandi konum.

Ástæður þess að heilbrigðisyfirvöld um allan heim mæla nú með að barnshafandi konur fái sem fyrst bólusetningu gegn svínaflensu eru m.a. þær að barnshafandi konur eru í aðeins meiri hættu á að fá svínaflensuna og í aðeins meiri hættu á að veikjast meira og fá fylgikvilla vegna flensunnar. Hár hiti getur fylgt svona flensu og það er ekki æskilegt að barnshafandi kona sé með háan líkamshita því það hækkar líkamshita barnsins sem ekki er æskilegt. Lungnabólga er einn af mögulegum fylgikvillum svínaflensu og allt sem hefur áhrif á súrefnisflutning um blóðrás móður hefur einnig áhrif á súrefnisflutning til barnsins. Bólusetning verðandi móður veitir hinu ófædda barni hugsanlega vörn gegn flensunni en það er ekki hægt að bólusetja börn sem eru yngri en 6 mánaða og því er mikilvægt að allir sem umgangast börn yngri en 6 mánaða séu bólusettir.

Það er ekki hægt að fullyrða að bólusetning gegn svínaflensu sé fullkomlega örugg fyrir móður og fóstur á meðgöngu en miðað við þær upplýsingar sem við höfum þá er mjög líklegt að ávinningur af bólusetningu sé meiri en hugsanleg áhætta af því að smitast af svínaflensu og þess vegna mæla heilbrigðisyfirvöld með því að barnshafandi konur séu settar í forgang hvað varðar bólusetningu gegn svínaflensu.

Auðvitað er best að fá hvorki bólusetningu né svínaflensu en þegar sjúkdómar er að ganga þá eru allir í hættu á að smitast og eins og fram hefur komið er talið betra að fá bólusetningu en svínaflensu.

Vona að þessar upplýsingar komi að einhverju gagni.

Kær kveðja,

Anna Sigríður Vernharðsdóttir,
ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur,
26. september 2009.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.