Spurt og svarað

20. mars 2006

Brjóstagjöf, brjóstastækkun og slit

Sæl!

Þannig er mál með vexti að ég er ólétt af öðru barni mínu og er óskaplega spennt.  Eitt sem ég vil gjarnan fá að vita er hvort og hvernig farið er að því ef ég vil ekki gefa barninu mínu brjóst. Þegar ég var með fyrra barn mitt á brjósti þá stækkuðu þau mikið, líklega sökum þess að ég er með silikon í brjóstunum og fékk þar af leiðandi slit á brjóstin sem eru loksins núna farin að jafna sig.  Ég veit að þetta er mikil hégómagirni í mér en mér er mikið í mun að slitna ekki meira á brjóstunum og svo gekk síðasta brjóstagjöf vægast sagt ekki vel.  Fékk stíflur nokkrum sinnum og sár á geirvörturnar og endaði með því að hafa barnið eingöngu á brjósti í
2 mánuði.  Dóttir mín er 5 ára í dag og hefur alltaf verið mjög hraust.

Þannig að spurning mín er sú hvort ég ráði hvort ég hafi barnið mitt á brjósti? Og hvort það muni skaða barnið mitt að hafa það ekki á brjósti fyrstu mánuði þess.  Myndi ég sæta miklu mótlæti af hálfu ljósunnar minnar ef ég ákveð að hafa barnið ekki á brjósti?

Með von um góð svör.


Sæl og blessuð.

Þú ræður því að sjálfsögðu alltaf hvernig þú nærir barnið þitt. Þú þarft bara að vera alveg viss um að þú hafir allar upplýsingar um þá kosti sem eru í boði eru. Og þú þarft að vita kosti og galla allra kostanna. Þegar þú ert búin að fá þessar upplýsingar, væntanlega frá ljósmóðurinni þinni, þá tekur þú þína ákvörðun og þú átt að fá jafngóðan stuðning við þína ákvörðun hver svo sem hún verður.

Spurning þín um hvort að það muni skaða barnið að þú hafir það ekki á brjósti er erfið. Það skaðar barnið ekki beinlínis en það eru viss atriði sem það missir af og það er ekki gott að vita hvort það hafi áhrif eða hve mikil. En þetta eru atriðið sem ljósmóðirin þín á að útskýra voða vel.

Nei, þú átt ekki að sæta neinu mótlæti fyrir að hafa barnið ekki á brjósti frá heilbrigðisgeiranum (ef fyrrnefndum skilyrðum er fullnægt) en það getur stundum verið erfitt að útskýra málin fyrir vinum og vandamönnum.

Með bestu ósk um gott gengi,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
20. mars 2006.

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.