Spurt og svarað

07. júní 2005

Brjóstagjöf, eplaedik o.fl.

Sælar ljósmæður og takk fyrir frábæran vef.

Þannig er að ég er með eina 9 vikna á brjósti.  Nú er ég með frekar mikinn bjúg.  Er óhætt að taka inn eplaedik til að minnka bjúginn?  Brjóstagjöfin gekk frekar illa til að byrja með og þurfti ég að gefa ábót fyrst en nú hefur hún verið eingöngu á brjósti síðustu 3 vikur.  Ég er frekar fastmjólka og þarf stelpan að hafa frekar mikið fyrir því að sjúga og svo er mjólkin frekar lítil á kvöldin og hún sýgur á klukkutíma fresti bæði brjóstin frá svona 18 á daginn.  Hefur eplaedik áhrif á framleiðsluna og kannski líka hvort mjólkin situr enn fastar í mér við það? Svo langar mig líka að spyrja um hvernig ég á að haga mér í sambandi við næturgjafir.  Stelpan sefur oft í allt að 8 tíma, þegar hún vaknar þá drekkur hún úr öðru brjóstinu sem er orðið sprengfullt og sofnar svo aftur og sefur í u.þ.b. 3 tíma þannið að hitt brjóstið er þá að bíða í 11 tíma milli gjafa.  Er þetta ekki vont þegar maður er að reyna að halda framleiðslunni í gangi.  Hvernig er best að haga þessum gjöfum, eða er þetta í lagi svona?

Takk fyrir.

.......................................................................


Sæl og blessuð.

Jú, þér er óhætt að taka inn eplaedik. Það sem þú þarft að passa er að drekka nægilegan vökva. Ekki fara út í að neita þér um þann vökva sem þig langar í. Eplaedik í hófi ætti ekki að hafa nein áhrif á framleiðsluna. Að sjálfsögðu hefur það ekki áhrif á hversu„fast“mjólkin situr í þér. Það eina sem hefur áhrif á það er hvernig þú ert stemmd. Þú þarft bara að slappa af og þá rennur mjólkin. Mjólkin er aðeins minni á kvöldin hjá öllum konum og hún er líka svolítið öðruvísi samsett en á öðrum tímum sólarhringsins. Hún er samt alltaf næg. Af eðlilegum ástæðum þurfa börn þó oft fleiri gjafir á þeim tíma og/eða lengri til að verða mett. Þetta hljómar nú ekki sem stórt vandamál hjá þér.  

Varðandi næturgjafirnar þá er þetta óvenju langur nætursvefn hjá svo ungu barni. Þú skalt ekki reikna með að þetta verði endilega alltaf svona. En á meðan þetta varir held ég að væri betra ef þú reyndir að gefa af báðum brjóstum í fyrstu gjöfinni að morgni. Það eru þó ekki hundrað í hættunni þó það takist ekki.

Með bestu óskum um að svona vel gangi áfram,

Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
7. júní 2005.

 

 

Senda fyrirspurn
Allir reitir verða að vera fylltir útSenda
Fyrirspurnin þín hefur verið send.
Fannstu ekki svar?

Einnig viljum við benda á bæklingaröð Ljósmæðrafélags Íslands og greinarnar "Ljósmóðirin skrifar um", þar er að finna svör við mörgum af algengustu fyrirspurnunum.

Ljósmóðir mun leitast við að svara fyrirspurnum sem fyrst en athugið að það geta liðið allt að tvær vikur frá því að fyrirspurn er send inn og þar til svar er birt hér á vefnum. Svör við fyrirspurnum eru aðeins ætluð til fræðslu og upplýsingar en eiga á engan hátt að koma í stað faglegrar aðstoðar ljósmæðra, lækna eða annars fagfólks.

Því miður getum við ekki svarað öllum fyrirspurnum sem berast en leitumst fyrst og fremst við að svara fyrirspurnum um efni sem ekki hefur verið spurt um áður. Svör við fyrirspurnum birtast hér á síðunni ásamt fyrirspurninni sjálfri.