Brjóstagjöf, erfið byrjun

11.05.2011
Hæ, hæ!
Nú er ég með mitt annað barn og hefur brjóstagjöfin gengið brösuglega. Brjóstamjólkin var lengi að koma og litli kúturinn hékk á brjósti. Hann fékk smá vott af gulu og varð ég þá að vekja hann á 3 tíma fresti. Nokkrum dögum síðar fékk hann sveppasýkingu og einnig ég. Ég reyndi að hafa hann á brjósti en það var rosalega sárt svo ég byrjaði með ábót á kvöldin. 1 dag gat ég ekkert haft hann á brjósti út af sárum. Þá var mér bent á mexicohattinn. Ég var nýfarin að nota hann þegar ég fékk orðið alltaf verk í brjóstið þegar hann drakk og þegar hann var nýbúinn að drekka. Þegar ég leitaði til hjúkku sagði hún mér að sveppasýkingin væri komin inn í brjóstin og ég þyrfti lyf. Brjóstagjöfin gekk ekki vel með fyrra barnið mitt. Hún var 6 vikna þegar hún hætti á brjósti. Það var eins og hún hefði ekki fengið neitt hjá mér. En það sem ég er nú að velta fyrir mér er að bæði mamma og amma mín gátu ekki haft sín börn lengi á brjósti út af lítilli mjólk. Ætti ég samt ekki að geta verið með minn gutta lengur þó það gangi illa núna? Ég vil svo mikið að þetta gangi betur núna. Hvað tekur það langan tíma að fá mjólkurframleiðsluna í gang aftur?
Kær kveðja og þakkir fyrir æðislegan vef. Steffy.
 
Sæl og blessuð Steffy!
Jú, það er sem betur fer þannig að hæfileiki til mjólkurframleiðslu gengur ekki í erfðir. Eldri kynslóðir bjuggu líka við það að vitneskja og aðstæður voru oft ófullnægjandi og það skemmdi oft fyrir þeim. Þannig að þú hefur alla möguleika á að þetta gangi vel upp hjá þér. Það sem skiptir þig sennilega mesti máli er að laga sveppasýkinguna á sem stystum tíma og að leggja barnið beint á brjóstið á meðan (8-12 sinnum á sólarhring). Þú átt ekki að gefa ábót ef þú ert að reyna að hvetja brjóstin til að framleiða meira. Ef barnið er óánægt með það getur það tímabundið þurft fleiri gjafir( 12-16 á sólarhring). Það getur tekið 2-4 daga að fá framleiðslu í gott jafnvægi og þá er hægt að fækka gjöfunum aftur.
Vona að þetta gangi vel.
Katrín Edda Magnúsdóttir,
ljósmóðir og brjóstagjafaráðgjafi,
11. maí 2011.